Fastir pennar

Bakklóra og lakkrísrör

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Við vitum ekki margt – en þeim mun fleira er okkur sagt. Þegar þetta er skrifað um hádegisbil á sunnudegi hefur enn ekki verið sýndur margboðaður Kastljósþáttur um hið ljúfa aflandseyjalíf íslenskra ráðamanna, kaupahéðna, hálaunamanna og þeirra sem slegið hafa eign sinni á auðlindir Íslendinga og flutt arðinn af þeim í skattaskjól og forboðnar myntir. Við vitum að Íslendingar eiga rúmlega þúsund milljarða erlendis. Við vitum að almenningur býr við gjaldeyrishöft og gjaldmiðil sem hentar einkum vel til kjaraskerðinga og launalækkunar. Við vitum að íslenskt heilbrigðiskerfi er eins og í stríðshrjáðu landi. Við vitum að það vantar alltaf peninga, nánast hvert sem litið er í opinberri þjónustu. Og við vitum að þarna er beint samhengi á milli og að um þetta er tekist á í íslenskum stjórnmálum, arðinn af auðlindunum: það er „stóra málið“.

Annars vitum við ósköp fátt. Þegar þetta er skrifað um hádegisbil á sunnudegi er ótal margt sem við vitum ekki og það sem við þó vitum – það er alltaf verið að reyna að snúa því og bjaga það og skekkja, þannig að við vitum það ekki lengur.

Við erum lítið frædd – en þeim mun meira er okkur sagt.

110 ára reglan fundin?

Framsóknarþingmenn standa sem einn maður að baki foringjanum og sverja honum trúnaðareiða með frukti og bugti. Svo einhuga eru Framsóknarmenn að þeir hafa beinlínis þjappað sér saman um að birta hver af öðrum sömu greinina, hver undir sínu nafni, þar sem öll vandræði ráðherrans eru rakin til Ríkisútvarpsins, nema hvað, og fárast yfir því talað sé til dæmis við siðfræðinga um siðferðileg álitamál en ekki látnar duga flokkssamþykktir Framsóknar um að þar gildi sjálfdæmi og annáluð dómgreind ráðherrans. Í hinni margbirtu grein er það harðlega átalið að fréttastofa Ríkisútvarpsins skuli ekki leita ráða hjá Framsóknarmönnum um æskilega en þó einkum óæskilega viðmælendur og ekki sé nóg talað við Framsóknarmenn. Og samt er téð fréttastofa einmitt alltaf að reyna að ná tali af hinum eina sanna Framsóknarmanni, sjálfum formanni flokksins, sem hefur sett sér það siðalögmál að tala ekki við RÚV.

Ásmundur Einar Daðason, einn úr vaskri sveit aðstoðarmanna Sigmundar Davíðs, mætti að vísu í þáttinn Í vikulokin á RÚV – enda eru Framsóknarmenn þar tíðir gestir hvað sem öllu líður. Ásmundur virtist eins og við hin vita mjög fátt, eiginlega bara eitt – og sagði það sjö sinnum, til að ekkert færi á milli mála. Hann þrástagaðist á því að „stóra málið“ væri að forsætisráðherra og eiginkona hans hefðu greitt skatta af eignum sínum á erlendum aflandseyjum. En það er alveg óvart eitt af því sem við vitum einmitt ekki. Við vitum bara að forsætisráðherrann segir að skattar hafi verið greiddir af öllum innistæðum þeirra á aflandseyjum – það jafngildir ekki endilega veruleikanum, þó að ráðherrann segi eitthvað, eins og dæmin sanna. Og þegar einhver sér ástæðu til að segja mér eitthvað sjö sinnum verð ég að játa að á mig fara að renna tvær grímur.

Hitt vitum við að annar úr vaskri sveit aðstoðarmanna ráðherrans, Jóhannes Þór Skúlason, oft nefndur útskýrari, neitar að svara því hvort eiginkona ráðherrans hafi skilað svonefndu CFC (Controlled Foreign Corporation) framtali vegna Wintris-félagsins á Tortóla, en Íslendingum sem eiga eignir á lágskattasvæðum ber samkvæmt lögum frá 2009 að skila slíku framtali.

Kannski að hin dularfulla 110 ára leyndarregla hennar Vigdísar Hauksdóttur, sem enginn hefur fundið, gildi einmitt þarna.

Hið leynda evru-líf

Við vitum ekki margt – en þeim mun fleira er okkur sagt. Til dæmis er okkur nú tjáð af öðrum ráðherrum úr wintris-stjórninni sem uppvísir eru að eignarhaldi á aflandseyjafélögum, að þeir séu alls ekki að koma þaðan heldur miklu heldur af fjöllum. Ha ég? Neineinei, bara til málamynda … notaði það aldrei … mér óviðkomandi … bankafulltrúinn minn sagði … alveg búinn að steingleyma … vissi ekki neitt …

Við höfum bara þeirra orð, sem aldrei sáu ástæðu til að upplýsa kjósendur sína um sitt leynda evru-líf.

Og svo, þegar allt annað bregst, er alltaf reynt að segja okkur frá kylfunni og gulrótinni sem Sigmundur Davíð hafi beitt „erlendu kröfuhafana“ svo ótæpilega og af svo miklu harðfylgi. Gerði hann það? Ýmsir hafa bent á að sambærileg eða jafnvel betri niðurstaða úr uppgjöri þrotabúa bankanna hafi legið fyrir árið 2013, samkvæmt áætlunum seðlabankastjóra. Það hefur líka verið bent á að hefði stöðugleikaskattur verið lagður á þrotabúin, eins og til að mynda Indefence-hópurinn vildi, hefðu að minnsta kosti 300-500 milljarðar til viðbótar komið í hlut Íslendinga – það er að segja okkar hinna – ekki aflendinga á borð við forsætisráðherrahjónin. Þau högnuðust sem sé á þeirri leið sem farin var.

Kylfa og gulrót? Kannski nær væri að segja að forsætisráðherrann hafi farið í þessar viðræður vopnaður bakklóru og lakkrísröri.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. apríl






×