Sport

Conor mun aldrei verja fjaðurvigtarbeltið sitt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Dos Anjos og Conor McGregor.
Dos Anjos og Conor McGregor. vísir/getty
Léttvigtarmeistari UFC, Rafael dos Anjos, þreytist ekki á að ræða um fjaðurvigtarmeistarann, Conor McGregor.

Þeir áttu að berjast um léttvigtarbeltið á dögunum en Dos Anjos dró sig úr keppni þar sem hann meiddist ellefu dögum fyrir bardagann.

Í staðinn fór McGregor í búrið gegn Nate Diaz í veltivigtarbardaga og tapaði í fyrsta sinn í UFC. McGregor og Diaz munu svo mætast aftur í júlí.

Á sama kvöldi munu helstu andstæðingar McGregor í fjaðurvigtinni, Jose Aldo og Frankie Edgar, keppa um bráðabirgðabeltið í þyngdarflokknum. Sigurvegarinn á svo að mæta Conor.

Dos Anjos hefur enga trú á því að það verði af þeim bardaga.

„Sama dag og Aldo og Edgar berjast er meistarinn að keppa í tveimur þyngdarflokkum fyrir ofan. Ég hef enga trú á því að hann keppi aftur í fjaðurvigtinni. Hann vill hætta þar sem meistari,“ sagði Dos Anjos.

„Það er því eiginlega glórulaust að Aldo og Edgar séu að keppa um eitthvað bráðabirgðabelti.“

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×