Fastir pennar

Staðnað kerfi

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Matvara gæti verið 35 prósentum ódýrari. Í nýlegri grein í Fréttablaðinu segir, að útreikningar sýni að ef tollar og innflutningshindranir á matvöru verða felldir niður ætti verð á innfluttum matvörum til neytenda að vera 19-53 prósentum lægra en verð á sams konar innlendum matvörum.

Fram kemur, að í heild greiði neytendur um 22 milljarða króna á ári aukalega vegna tollahindrana á landbúnaðarvörum og skattgreiðendur um 14 milljarða vegna styrkja, samtals um 35 milljarðar króna á ári. Rúmar 100 þús. kr. á hvern Íslending.

Þetta eru sláandi tölur, sem höfundar greinarinnar, Guðjón Sigurhjartarson og Jóhannes Gunnarsson, varpa skýru ljósi á. Óhagkvæmnina má rekja til hinna umfangsmiklu styrkja og verndar fyrir innlendri og erlendri samkeppni, sem landbúnaðurinn nýtur. Hvort tveggja dregur úr hvatanum til hagræðingar og nýsköpunar.

Ef hægt er að hafa hlutina einfalda er engin ástæða til að flækja þá. Það efast enginn um góðan ásetning stjórnvalda og bændaforystu, en búvörulögin flækja málin þannig að neytandinn hefur engar forsendur til að átta sig á fyrir hvað hann er að borga. Til að átta sig á því, þarf heilmikla yfirlegu.

Aldrei hafa verið fleiri tækifæri til að skapa arðbær störf í sveitum. Höfuðborgin annar ekki sívaxandi straumi ferðamanna og það er hrein og bein nauðsyn að ýta undir fjölbreytni og dreifa velkomnum ferðalöngum víðar um landið. Um leið skapast svigrúm til að beina kröftum sveitafólks frá hefðbundnum landbúnaði, sem ekki hefur skilað bændum góðri afkomu. Opinberi stuðningurinn á að losa fjötrana en ekki herða þá. Nóg er af hugmyndum til að vinna úr.

En hvað gerir ríkisstjórnin þá? Hún berst fyrir 10 ára búvörusamningi og vill festa enn í sessi þau gamaldags viðmið, sem alltof lengi hafa viðgengist. Sögu búvörulaganna má rekja aftur til ársins 1934. Ein af röksemdunum er svokallað matvælaöryggi. Íslendingar veiða meiri fisk á mann en nokkur önnur þjóð í heiminum. Það er leitun að þjóð sem býr við meira matvælaöryggi.

Fram hafa komið hugmyndir um að eðlilegt sé að svo stór fjárskuldbinding í heilan áratug fari í þjóðaratkvæði. Staðnað landbúnaðarkerfi hefur lengi notið stuðnings meirihluta þingmanna. Við höfum viljað tryggja byggð í sveitum landsins. En veruleikinn hefur breyst. Verndin hefur snúist upp í andhverfu sína. Hún tefur breytingar og vinnur gegn fólki í sveitum. Þjóðaratkvæði gæti knúið fram skapandi umræðu sem yrði öllum til góðs.

Samningurinn verður til umfjöllunar á Alþingi og í þjóðfélaginu á næstu vikum og mánuðum. Það hlýtur að teljast eðlilegt að alþingismenn gæti hagsmuna neytenda og skattgreiðenda - enn frekar nú þegar við blasir að óbreytt kerfi stendur sveitunum fyrir þrifum.

Það á að nota tækifærið og brjóta upp staðnað kerfi, sem enginn hagnast á – nema hugsanlega þeir sem lifa á því að viðhalda óbreyttu ástandi. Þannig munu allir græða og mannlíf í sveitum blómgast sem aldrei fyrr.






×