Menning

Hrútar besta mynd sem Woody Allen hefur séð nýlega

Bjarki Ármannsson skrifar
Hrútarnir hans Gríms Hákonarsonar heilluðu Allen.
Hrútarnir hans Gríms Hákonarsonar heilluðu Allen. Vísir/Getty/Brynjar Snær
Hrútar, kvikmynd Gríms Hákonarsonar, hefur vakið athygli víða um heim og halað inn verðlaunum frá því að hún kom út fyrir um ári síðan. Meðal aðdáanda myndarinnar úti í heimi er kvikmyndagoðsögnin Woody Allen, ef marka má viðtal við kappann sem Hollywood Reporter birtir í dag.

Hinn áttræði Allen er með þekktustu og virtustu leikurum og leikstjórum Bandaríkjanna. Í viðtalinu sem birtist í dag er hann spurður hvaða myndir hann hafi séð nýlega sem hafi heillað hann – og hann nefnir aðeins eina til sögunnar.

„Ég horfði á kvikmynd sem heitir Hrútar, sem mér féll vel í geð,“ segir Allen. „Íslensk mynd. En ég horfi ekki á margar bandarískar. Ég gat það einu sinni. Þegar ég ólst upp, var fjöldi góðra mynda í boði í hverri viku. Svo áttaði kvikmyndaiðnaðurinn sig á því að hægt væri að græða meira á stórum „blockbuster“-myndum. En enginn þeirra hefur nokkurn tímann heillað mig.“

Allen segist einnig í viðtalinu aldrei nokkurn tímann hafa horft á myndir sínar þegar hann er búinn með þær. Aðspurður hvort hann myndi eyða einhverjum af þeim tugum mynda sem hann hefur gert um tíðina ef hann gæti, hlær Allen og segist myndu eyða öllum nema um það bil átta myndum.


Tengdar fréttir

Kindurnar með hreinum ólíkindum

Hrútar, kvikmynd Gríms Hákonarsonar, umturnaði Bárðardal á meðan á tökum stóð en bændur og kvikmyndagerðarmenn lögðust á eitt til að gera myndina að veruleika.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×