Menning

Margverðlaunaður karlakór býður til fjörlegra tónleika

Magnús Guðmundsson skrifar
Svissneski karlakórinn Männer­stimmen­ Basel syngur í Akureyrarkirkju í kvöld.
Svissneski karlakórinn Männer­stimmen­ Basel syngur í Akureyrarkirkju í kvöld.
Svissneski karlakórinn Männerstimmen Basel verður með tónleika í Akureyrarkirkju í kvöld kl. 20 og er aðgangur að tónleikunum ókeypis en tekið er við frjálsum framlögum að tónleikum loknum.

Männerstimmen Basel er allsérstæður karlakór sem notið hefur mikillar velgengni á síðustu árum. Eitt af því sem einkennir kórinn er klæðaburðurinn sem samanstendur af hnébuxum, axlaböndum, skyrtu og flauelsjakka sem er í senn skemmtilega gamaldags og í sterkri mótsögn við afar nútímalega og lifandi tónleikaframkomu enda hafa þeir unnið til verðlauna víða um heim.

Meðlimir kórsins eru á aldrinum 18-32 ára og þeir hafa heillað tónleikagesti bæði í heimalandi sínu og víðar með flutningi sínum. Þessi orkumikli kór sameinar ástríðu og afslappað andrúmsloft, bæði á sviði og utan þess. Samvera og góðar hlátursrokur eru eins mikilvægar og æfingar og tónleikar. Þar sem kórinn er á styrktarsamningi við bruggverksmiðju í Basel er alltaf gullinn mjöður á boðstólum á æfingum hjá þeim þar sem sungið er af hjartans lyst og mikilli innlifun. En á tónleikum eru allir á tánum og fylgja stjórnanda sínum, Oliver Rudin, og aðstoðarstjórnanda, David Rossel. Kórinn flytur afar fjölbreytta efnisskrá með kirkjulegri og veraldlegri tónlist frá öllum tímabilum tónlistar­sögunnar en á hverju ári pantar kórinn nýtt tónverk frá þekktum tónskáldum.

Männerstimmen Basel hefur tvisvar unnið Gullverðlaun á World Choir Games í Riga, verið valinn besti kór Sviss og besti karlakórinn á Montreux Choral Festival. Auk þess hafa þeir drengirnir fengið Fleischmann International Trophy á Írlandi 2011 fyrir besta flutninginn á samtímatónlist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×