Menning

Stundum vaknar maður og vonast til þess að gera eitthvað allt annað í þessari stöðugu leit

Magnús Guðmundsson skrifar
Þór Vigfússon opnaði sýningu á verkum sínum í i8 galleríi síðasta föstudag.
Þór Vigfússon opnaði sýningu á verkum sínum í i8 galleríi síðasta föstudag. Visir/Stefán
Myndlist þarf ekki alltaf að vera flókin til þess að heilla þá sem hennar njóta. Það sýna verk Þórs Vigfússonar sem opnaði einkasýningu í i8 galleríi síðastliðinn föstudag en Þór hefur á ferli sínum sýnt bæði hér heima sem og í útlöndum og var tilnefndur til Carnegie-myndlistarverðlaunanna árið 2008. Þór lærði við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Strichting De Vrije Academie í Haag en hann segist þó ekki hafa dvalið eins lengi við nám í Hollandi og svo margir íslenskir kollegar.

„Ég var nú ekki lengi í Hollandi miðað við marga vini mína. Ég var einhvern veginn fljótur til þess að halda að skólar væru óttalegt rusl og hreint ekkert af hinu góða. Ég á það reyndar til enn að halda þetta en finnst nú samt að fólk eigi að mennta sig en þetta er engu að síður ákveðinn kúgun í mínum huga. Ég hef alltaf litið á skóla sem kúgun, alveg frá því að ég var barn. Fyrir mér var barnaskólinn og sú menntun sem fylgdi afplánun sem ég þyrfti að komast í gegn um. En ég verð nú að taka það fram að stundum finnst mér þetta há mér og þá aðallega í mannlegum samskiptum,“ segir Þór og hlær góðlátlega.

Visir/Stefán
Í leit að sléttum fleti

Það er mikið og vandað handbragð sem liggur að baki verkum Þórs sem segir að vissulega sé hann hrifinn af vönduðu og góðu handbragði, sérstaklega þegar það hefur áhrif á útkomuna á hans eigin verkum. „Handbragð er samt ekkert sem ég dýrka. Mér er í sjálfu sér andskotans sama um handbragð fólks á flestum sviðum nema kannski þeirra manna sem ég fæ til þess að vinna fyrir mig svona til þess að koma mér að markmiðinu. En það sem ég er að sýna núna í i8 er mest málað gler og svo er ég með eitt formica-verk sem ég gerði upprunalega 2005 en breytti núna nýverið. Það var soldið stórt og það voru einmitt mjög góðir handverksmenn sem smíðuðu það fyrir mig á sínum tíma og það var nokkuð flókið ferli sem þeir leystu ákaflega vel. En ég breytti þessu verki talsvert mikið núna.

En glerið byrjaði ég upprunalega að nota bara sem gler. Ég elska þennan græna lit í glerinu sem margir vilja losna við þegar þeir eru að vinna það. En svo féll ég líka fyrir spegluninni. Var búinn að vera í leit að sléttum fleti, var að láta bílamálara mála fyrir mig og var svona aðeins að vandræðast með þetta en glerið er svo tært að það getur eiginlega ekki klikkað.“ Þór lítur þó alls ekki á sig sem glerlistamann í hefðbundnum skilningi. „Nei, ég kann ekkert á gler nema að ég get skorið það og svona bjargað mér. Ég er lítið að nota þennan gagnsæja eiginleika, ég gerði það meira þegar ég var að vinna með plexíglerið. En það sem ég er með á þessari sýningu er svo massíft málað að þó að þú dragir þetta út á gólf þá áttu í sjálfu sér ekkert að sjá í gegnum þetta. Enda er ég ekki að vinna með birtuna með sama hætti og glerlistamenn gera t.d. í kirkjuverkum og slíku.

Grunnur listarinnar

Litir og form eru í raun þessir tveir grunnar sem þetta snýst um hjá mér. Maður á ekkert að vera að flækja þetta. Maður þarf að vita hvaðan litirnir koma og ég er að vinna með litapallettuna og annað. Hún bara kemur frá þessum frumlitum og tónunum. Upphaflega notaði ég bara gulan, grænan, bláan og svo fór ég aðeins að stækka við mig hægt og rólega. Ég sulla óneitanlega talsvert með liti sem ég er að vinna með og reyni að aðlaga þá að kerfinu sem ég er að vinna inn í hverju sinni.

Með sambærilegum hætti þá byrjaði ég að vinna einvörðungu með ferninga í forminu. Svo fór þetta að þróast skref fyrir skref með beinum hornum og svo kom sporaskjan inn í þetta og ég er að vinna með hana í dag í ýmsum útgáfum. Ég hef alltaf sótt í að vinna í þessum grunni myndlistarinnar. Þegar maður er ungur og er að leita sér að myndefni og mótífi þá er maður að leita sér að ástæðu til þess að gera hlutinn. Það er eiginlega enn þá erfitt að finna ástæðu til þess að setja hlutinn frá sér. Áður fyrr gerði ég oft seríu til þess að sýna hvaðan ég kæmi og hvert ég væri að fara. Gerði kannski 12 til 15 mynda seríu en þetta hefur breyst og ég er í dag afslappaðri með þetta. Þannig að þetta er núna einfaldara en það var áður. En ég hef stundum verið að gera eitthvað annað og stundum vaknar maður og vonast til þess að gera eitthvað allt annað í þessari stöðugu leit og verða þá auðvitað miklu hamingjusamari,“ segir Þór og hlær prakkaralega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×