Erlent

Vísindamenn vilja fresta Ólympíuleikunum

Birta Björnsdóttir skrifar
Búist er við að allt að hálf milljón ferðamanna leggi leið sína til Brasilíu í lok sumars í tengslum við sumarólympíuleikana í Ríó de Janeiro.

Um 150 virtir vísindarmenn víðsvegar að úr heiminum sendu Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) áskorun á dögunum þar sem þeir mælast til þess að stofnunin beiti sér fyrir því að Ólympíuleikarnir verði fluttir um set eða þeim frestað sökum hættu á að zika-veiran svokallaða breiðist út um heiminn. Meðal þeirra sem undir ákorunina skrifa er fyrrum ráðgjafi Hvíta hússins í heilbrigðismálum.

Hæstráðendur hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni segja þó að ekki sé ástæða til að fresta leikunum.

„Okkar svar við þessum áhyggjum af ástandinu í Brasilíu er byggt á afar vel ígrunduðum áætlunum byggðum á öllum þeim upplýsingum sem við höfum. Við teljum að Ólympíuleikarnir eigi að fara fram líkt og áður hafði verið ákveðið en að áfram verði unnið að öryggismálum fyrir leikana," segir Bruce Alward, yfirmaður sóttvarna og heimsfaraldra hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Stofnunin áréttar jafnframt að útbreiðsla zika-veirunnar sé staðreynd sem ferðamannastraumur til Brasilíu síðsumars komi ekki til með að hafa teljandi áhrif á, veiran hafi nú þegar greinst í yfir 60 löndum. Mikilvægt sé hinsvegar að huga að forvörnum gegn veirunni, sem smitast með moskítóbiti, auk þess að fylgja tilmælum heilbrigðisyfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×