Erlent

Læknar kalla eftir því að Ólympíuleikunum í Rio verði frestað eða þeir færðir

Birgir Olgeirsson skrifar
Rio de Janeiro.
Rio de Janeiro. Vísir/Getty
Rúmlega hundrað læknar hafa hvatt til þess að Ólympíuleikarnir í Rio De Jenairo verði annað hvort færðir eða þeim frestað vegna útbreiðslu Zika-veirunnar. 

Greint er frá opnu bréfi þeirra til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC. Segja þeir að nýjar uppgötvanir um veiruna setja leikana í uppnám og að það sé siðferðilega rangt að halda þá þar að svo stöddu.

Biðja læknarnir Alþjóðaheilbrigðisstofnunina að horfa aftur til leiðbeininga sem hún gaf út vegna útbreiðslu veirunnar sem hefur verið tengd við alvarlegan fósturskaða.

Alþjóðaólympíunefndin gaf út fyrr í maí að hún sæi enga ástæðu til að fresta eða færa leikana vegna Zika-veirunnar. Útbreiðsla hennar hófst í Brasilíu fyrir um ári síðan en veiran hefur nú greinst í fjölda annarra landa. Einkenni veirunnar eru talin óveruleg en læknarnir segja í bréfi sínu að hún valdi vaxtaskerðingu hjá fóstri þeirra kvenna sem smitaðar eru af veirunni og hafa þúsundir barna í Brasilíu fæðst með svokallað dverghöfuð vegna þess. 

Zika-veiran hefur breiðst út með moskítóflugum og hafa yfirvöld í Brasilíu reynst að sporna gegn því en læknarnir segja þá aðgerð hafa mistekist og þá sé heilbrigðiskerfið í Brasilíu ekki í stakk búið til að takast á við vandann. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×