Menning

Katrín Hall ráðin til Gauta­borgar­óperunnar

Bjarki Ármannsson skrifar
Katrín var listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins á árunum 1996 til 2012.
Katrín var listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins á árunum 1996 til 2012. Vísir/GVA
Katrín Hall, áður listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins til margra ára, hefur verið ráðin listrænn stjórnandi dansflokks Gautaborgaróperunnar í Svíþjóð. Hún segir ráðninguna áskorun og að ögrandi verkefni bíði framundan.

„Þetta er mjög virtur dansflokkur og einn af þeim leiðandi í Evrópu,“ segir Katrín. „Þannig að sannarlega er þetta mikill heiður fyrir mig. Það eru alls konar tilfinningar sem blandast saman: Heiður, eftirvænting, spenna og svo veit ég að þetta verður mjög krefjandi verkefni.“

Við Gautaborgaróperuna eru ár hvert settar upp óperur, tónleikar og danssýningar. Dansflokkurinn sem Katrín mun veita listræna stjórn telur 38 dansara. Þegar er búið að skipuleggja næsta leikár hjá óperunni og lýst Katrínu vel á verkin sem taka á fyrir.

„Leikárið sem framundan er er mjög spennandi og fyrrverandi stjórnandi dansflokksins var mjög metnaðarfullur í sínu verkefnavali,“ segir hún. „Ég get hundrað prósent staðið á bak við allt sem verður sýnt næsta leikár og það með stolti. Þetta eru nánast sömu danshöfundar og ég hef verið að vinna með og verið í samtali við varðandi verkefni þegar ég var hjá Íslenska dansflokknum. Þannig að þetta er bara í beinu framhaldi af því.“

Katrín tekur við starfinu þann 1. ágúst næstkomandi og hefur gert samning til fjögurra ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.