Innlent

Forsætisráðherra ætlar að standa við orð sín um kosningar í haust

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. vísir/ernir
Forsætisráðherra segist vanur að standa við orð og á von að boðað verði til Alþingiskosninga í haust. Hann segir þó skiptar skoðanir um málið innan Framsóknarflokksins.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, mætti í þáttinn Sprengisand á Bylgjunni í morgun. Þar ræddi hann miðstjórnarfund flokksins sem haldinn var í gær. Sigurður Ingi segist ánægður með fundinn og á von á að miðstjórnarfundi haustsins verði flýtt svo hægt verði að endurnýja umboð flokksforystunnar fyrir kosningarnar í haust. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins talaði í ræðu sinni á fundinum í gær um væntanlegar kosningar. Virtist sem hann teldi ekki fullvíst að þær verði í haust líkt og forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa sagt. „Hvort sem að kosningarnar verða svo í haust eða síðar þá verðum við reiðubúin,“ sagði Sigmundur Davíð í ræðu sinni. 

„Það er enginn ágreiningur á milli mín og formanns Framsóknarflokksins um hvernig þetta eigi fram að ganga. Við sjáum öll fyrir okkur í stjórnarflokkunum að ljúka ákveðnum verkefnum. Það hefur gengið ágætlega og að þeim loknum þá verði gengið til kosninga,“ segir Sigurður Ingi. 

Hann segir ekki alla sammála því að boða eigi til kosninga í haust. „Það eru auðvitað skiptar skoðanir. Ekki bara í Framsóknarflokknum heldur í öllum flokkum. Meðal annars þingmenn stjórnarandstöðunnar. Menn hafa bent á að það geti verið óheppilegt, að ef við kjósum héðan í frá alltaf á fjögurra ára fresti, að eitt ár við fjárlagagerð og þing fari í þetta. Við höfum talað um það að það yrði gengið til kosninga þegar við höfum lokið ákveðnum verkefnum og ég sé ekkert breytast í því hvað þetta varðar. Það verður þá bara að rétta kúrsinn á næsta kjörtímabili,“ segir Sigurður Ingi. Hann segir hann hafa sagt að Alþingiskosningar verði í haust og hann sé vanur að standa við orð sín.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×