Innlent

Viðreisnarfólk ánægt með fylgiskönnun og stefnir í ríkisstjórn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Af stofnfundi Viðreisnar í Hörpu.
Af stofnfundi Viðreisnar í Hörpu. vísir/Stefán
Nýstofnaði stjórnmálaflokkurinn Viðreisn mælist með 4,3 prósenta fylgi í nýrri skoðanakönnun Gallup. Könnunin er sú fyrsta sem gerð hefur verið frá stofnun flokksins í lok maí. Viðreisn mælist nú með meira fylgi en Björt framtíð sem mælist með 4 prósent.

„Við erum ánægð með að þetta hafi þokast upp á við. Við fögnum því og vonum að þessi þróun haldi áfram,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og segist kátur yfir niðurstöðunum þar sem flokkurinn var ekki stofnaður fyrr en síðustu dagana sem könnunin var gerð.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. Fréttablaðið/GVA
„Við höfum sett okkur það markmið að við viljum komast í þá aðstöðu að komast í ríkisstjórn eftir kosningar. Það er opinbert markmið,“ segir Benedikt. Ef til þess kæmi væri Viðreisn tilbúin að vinna með hverjum þeim sem vill vinna að stefnumálum Viðreisnar.

Samkvæmt könnuninni, sem framkvæmd var dagana 28. apríl til 29. maí, bæta bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar við sig fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 28,5 prósent en Píratar með 27,4.

Fylgi Framsóknarflokksins mælist í rúmum tíu prósentum. Vinstri græn mælast með tæp sautján prósent og Samfylkingin tæp átta prósent.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júní.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×