Erlent

Fyrsta tilfellið af fæðingargalla vegna Zika veiru í Evrópu staðfest

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Börn með höfuðsmæð fæðast með minni heila en önnur börn og geta aldrei náð fullum þroska á ævinni.
Börn með höfuðsmæð fæðast með minni heila en önnur börn og geta aldrei náð fullum þroska á ævinni. Vísir/Getty
Spænsk kona sem sýkt var af Zika veirunni hefur nú fætt barn sitt. Barnið er eins og önnur börn með fæðingargalla sem veldur því að höfuð þeirra og heili eru óvenju smá. Talið er að þetta sé fyrsta tilfellið í Evrópu.

Foreldrum barnsins var tilkynnt um fæðingargallann á meðan á meðgöngu stóð en þau ákváðu engu að síður að eiga það. Læknar sem tóku á móti barninu segja það við góða heilsu og að lífshorfur þess séu eðlilegar.

Barnið var tekið með keisaraskurði eftir að móðir þess hafði gengið með það í 40 vikur. Yfirvöld á sjúkrahúsinu hafa staðfest að barnið sé með höfuðsmæð (e. microcephaly) fæðingargallann sem virðist plaga börn mæðra sem sýktar hafa verið af Zika veirunni. Heili slíkra barna nær aldrei fullum þroska og mörg þeirra ná aldrei þeirri hæfni að tala eða ganga. Einnig er algengt að börn með Zika veirunni eigi stutta ævi.

Móðirin er sögð hafa sýkst af veirunni á meðan hún var í ferðalagi erlendis. Um 190 tilfelli hafa komið upp á Spáni og öll þeirra hafa verið eftir utanlandsferðir, iðulega til Suður-Ameríku þar sem veiran hefur náð mikilli útbreiðslu.

Helsta smitleiðin er í gegnum moskítóflugur en hún smitast einnig frá móður til barns á meðan á meðgöngu stendur. Einnig er talið að veiran geti smitast með kynferðismökum en það er þá afar sjaldgæft. Talið er að veiran geti lifað lengi í sæði karlmanna. Veiran hefur einnig fundist í munnvatni og þvagi.

Ófrísk kona í Slóveníu greindist fyrir stuttu með veiruna og í kjölfarið ákvað hún að fara í fóstureyðingu.


Tengdar fréttir

Vísindamenn vilja fresta Ólympíuleikunum

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að ekki sé ástæða til að færa eða fresta fyrirhuguðum Ólympíuleikum í Brasilíu vegna zika-veirunnar. Hundrað og fimmtíu virtir vísindamenn skoruðu á stofnunina að mælast til þess að leikunum yrði frestað vegna hættu á aukinni útbreiðslu veirunnar um heim allan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×