En hann er ekki eini Íslendingurinn því leikkonurnar Kristbjörg Kjeld, Ágústa Eva Erlendsdóttir og Salóme Gunnarsdóttir eru þar einnig, og ekki útilokað að fleiri Íslendingar séu í þessu atriði en Vísir hefur ekki fengið það staðfest.

Justice League er ofurhetjuteymi sem samanstendur af Superman, Batman, WonderWoman, Aquaman, The Flash og Cyborg. Öll eru þau úr ofurhetjuheimi myndasagnaútgáfunnar DC-Comics. Fyrr í ár var Batman v Superman: Dawn of Justice frumsýnd en hún er undanfari Justice League og mátti sjá alla meðlimi teymisins bregða fyrir í þeirri mynd. Justice League verður frumsýnd á næsta ári en tökur hófust fyrr í sumar og er áætlað að taka upp hluta myndarinnar hér á landi í haust, nánar tiltekið á Ströndum.
Líkur á að Ingvar fái einhverjar línur
Í atriðinu þar sem íslensku leikurunum bregður fyrir er Ben Affleck í hlutverki Bruce Wayne staddur í ótilgreindu þorpi í leit að huldumanni sem færir þorpsbúum fisk yfir vetrartímann þegar lítið er eftir að matarbirgðum. Í þann mund snýr Arthur Curry sér við sem flestir myndasagnaaðdáendur þekkja sem Aquaman en það er Jason Momoa sem leikur hann. Um leið og hann snýr sér við má sjá Ingvar E. Sigurðsson bregða fyrir en talið er að Ingvar fái einhverjar línur í þessu atriði á móti Ben Affleck, þó svo að það sé með engu staðfest.

Tökur á myndinni hófust í apríl síðastliðnum og hafa að stærstum hluta farið fram í Leavesden-myndverinu í Lundúnum sem er í eigu Warner Bros. Flogið var með Íslendingana þangað út fyrir rúmum mánuði þar sem upptökur á þessu atriði fóru fram. Talið er að tökur muni einnig fara að hluta til fram í Skotlandi og Íslandi.
Skemmtiferðaskip hýsir mannskapinn á Ströndum
Nútíminn sagði frá því í síðustu viku tökur á Justice League-muni fara fram á Djúpavík á Ströndum í október næstkomandi. Ásbjörn Þorgilsson, eigandi Hótels Djúpavíkur, sagði við Bændablaðið fyrir skemmstu að von væri á 200 manns til Djúpavíkur til að vinna myndina og að skemmtiferðaskip verði fengið á staðinn til að hýsa starfsliðið.
Strandirnar gætu verið framandi heimkynni illmennis
Upproxx sagði frá því í febrúar síðastliðnum að landslagið á Ströndum eigi líklega að vera frá framandi plánetu í Justice League og er gert að því skóna að um sé að ræða Apokolips, heimkynni illmennisins Darkseid.
Með helstu hlutverk í myndinni fara fyrrnefndi Ben Affleck og Jason Momoa sem Batman og Aquaman, Henry Cavill sem Superman, Gal Gadot sem WonderWoman, Ezra Miller sem The Flash og Ray Fisher sem Cyborg. Þá er kunnugleg andlit þar einnig á borð við Amy Adams sem Lois Lane, J.K. Simmons sem Gordon lögreglustjóri, Jesse Eisenberg sem Lex Luthor, Willem Dafoe sem Nuidis Vulko og Jeremy Irons sem Alfred Pennyworth.
Stikluna má sjá hér fyrir neðan: