Menning

Markmiðið að fleiri lesi góðar bækur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég mun halda áfram að skrifa því ég er með bækur í pípunum sem ég þarf að ljúka. Þær koma þó varla út á þessu ári en vonandi fljótlega, ef Guð lofar,“ segir Páll.
"Ég mun halda áfram að skrifa því ég er með bækur í pípunum sem ég þarf að ljúka. Þær koma þó varla út á þessu ári en vonandi fljótlega, ef Guð lofar,“ segir Páll. Vísir/Hanna
Mér líst vel á þetta starf, annars hefði ég ekki sagt já við því,“ segir Páll Valsson rithöfundur sem sest í stól útgáfustjóra hjá Bjarti um næstu mánaðamót. „Bókaforlagið Bjartur var stofnað af æskuvini mínum Snæbirni Arngrímssyni og mér hefur alltaf verið hlýtt til þess. Þar hafa menn einbeitt sér að góðum bókmenntum í gegnum tíðina og staðið sig vel. Mér sýnist ég taka við góðu búi.“

Páll var um margra ára skeið útgáfustjóri Máls og menningar en hefur frá árinu 2007 verið bókmenntaráðunautur Forlagsins meðfram ritstörfum.

Hefur honum kannski þótt erfitt að vera hinum megin við borðið og keppa við Bjart?

„Samkeppni í þessum bransa er nú þannig að allir róa í sömu átt. Þetta snýst um að gefa út góðar bækur, bæði íslenskar og þýddar, og öll samkeppni í því er af hinu góða. Markaðurinn er vitaskuld örsmár en metnaðarfull og öflug forlög hljóta að reyna að stækka hann, það er markmiðið að sífellt fleiri lesi góðar bækur.“

Eitt af því sem Páll hyggst beita sér fyrir hjá Bjarti er að gefa út í auknum mæli erlendar bækur í íslenskri þýðingu eftir mikilvæga samtímahöfunda.

„Það er áhyggjuefni að margt af því sem er skarplegast hugsað og skrifað í veröldinni kemur ekki út á íslenskri tungu. Mér finnst að þar hafi útgefendur aðeins gefið eftir og þurfi að taka sig á. Margir helstu höfundar okkar tíma koma ekki lengur út á íslensku. Ég tel að þetta komi niður á íslenskunni til lengri tíma. Tungumálið verður að þróast áfram og eflast og það gerist í glímu við það sem best er skrifað á öðrum tungum á hverjum tíma.“

Páll segir engan skort á þýðendum.

„Við eigum bæði góða höfunda og góða þýðendur, oft eru það reyndar sömu persónurnar,“ segir hann en reiknar ekki með að hafa mikinn tíma til að þýða sjálfur. „En ég mun halda áfram að skrifa því ég er með bækur í pípunum sem ég þarf að ljúka. Þær koma þó varla út á þessu ári en vonandi fljótlega, ef guð lofar.“

 



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. júlí 2016.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×