Bakþankar

Víkingaklappið

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Húh, búmm búmm, húh. Líklega er fátt sem hefur sameinað þjóðina jafn innilega á EM í sumar. Við upplifðum okkur einhvern veginn öll sem þátttakendur sem endurspeglaðist í víkingaklappinu svokallaða (reyndar þykir það víst eitthvað asnalegt að minnast á víkinga í samhengi við árangur í íþróttum). Allir útlendingar sem hittu Íslendinga í Evrópu í sumar heilsuðu svona:

Búmm, búmm, húh. Athyglin sem við Íslendingar fengum í sumar fór okkur vel. Við gátum loksins sett kassann út aftur. Við áttum stúkuna í stóru leikjunum og vorum stolt af því. Aftur vorum við orðin einstök en nú, öfugt við árangurinn á fjármálasviðinu, var árangurinn óumdeildur, mælanlegur.

Húh, búmm, búmm, húh. Við klöppuðum taktfast í sameiningu. Í Frakklandi, á Austurvelli, heima í stofu, í flugvélinni og bara hvar sem nokkrir Íslendingar voru samankomnir með eitthvað sem líktist trommu. En eftir Evrópumótið hefur þetta haldið áfram.

Búmm, Búmm, húh. Hefur heyrst víða, löngu eftir að Evrópumótinu lauk. Sumum finnst þetta æðislegt, öðrum finnst þetta hrikalega vandræðalegt. Sameiningartáknið er nú farið að verða tákn sundrungar. Þess vegna er mikilvægt að við sem samfélag komumst að samkomulagi. Við þurfum að finna út hvenær má nota:

Búmm, Búmm húh. Við þurfum að eiga samræðuna, við þurfum að komast að niðurstöðu. Fólk er farið að rífast um þetta og nú þurfa málsmetandi aðilar að leggja lóð sín á vogaskálarnar. Það er nauðsyn.






×