Bandaríska vefsíðan TMZ birti í gær myndband sem talið er að sýni leikaraparið Johnny Depp og Amber Heard í eldhúsinu heima hjá þeim en í myndbandinu virðist Depp mjög drukkinn og lætur öllum illum látum. Heard tók myndbandið upp á síma.
Heard sótti um skilnað frá Depp í maí síðastliðnum en hún sakar hann um að hafa ráðist á hana. Í vor dæmdi dómari í Los Angeles Depp í nálgunarbann en Amber sagði leikarann hafa kastað farsíma í andlit hennar, rifið í hár hennar, öskrað á hana og lamið hana ítrekað. Myndbandið á að hafa verið tekið áður einhverjum mánuðum áður en Heard sótti um skilnað.
Í myndbandinu sem lekið var til fjölmiðla sést Depp sparka í eldhúsinnréttingu á meðan Heard spyr hann ítrekað hvað hafi gerst. Þá biður hún hann afsökunar á einhverju en ekki er ljóst á hverju hún er að biðjast afsökunar.
Á myndbandinu heyrast brothljóð og svo sést stór vínflaska sem Heard spyr Depp hvort hann hafi drukkið nánast alla þá um morguninn.
Leikarinn virðist svo átta sig á því að Heard er að taka hann upp á símann sinn. Hann slær því í símann og spyr Heard hvort að þetta sé það sem sé í gangi.
Samkvæmt miðlum ytra er því haldið fram af vinum Depp að búið sé að eiga við myndbandið og að Heard hafi verið að espa hann upp en myndbandið er sönnunargagn sem lögmenn Heard hafa lagt fram í skilnaðarmáli hjónanna.
Í gær kom Heard til Los Angeles og gaf vitnisburð hjá lögmönnum Depp varðandi ofbeldið sem hún segir hann hafa beitt sig en réttarhöld vegna nálgunarbannsins fara fram í næstu viku.
Myndbandið sem Heard tók má sjá hér að neðan en það er rétt að vara viðkvæma við því.