Erlent

Lýsa yfir neyðarástandi á Puerto Rico vegna útbreiðslu zika-veirunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Veiran getur valdið fósturskaða þannig að börn fæðast vansköpuð, eða með svokallað dverghöfuð.
Veiran getur valdið fósturskaða þannig að börn fæðast vansköpuð, eða með svokallað dverghöfuð. Vísir/AFP
Bandarísk heilbrigðismálayfirvöld hafa lýst yfir neyðarástandi á Puerto Rico vegna mikillar útbreiðslu zika-veirunnar. Útbreiðslan er sögð ógna lýðheilsu íbúa eyjunnar.

Alejandro García Padilla, ríkisstjóri sambandssvæðisins, hafði áður óskað eftir auknum heimildum til að bregðast við útbreiðslunni og var í kjölfarið ákveðið að lýsa yfir neyðarástandi. Zikaveiran er sögð ógna heilsu mörg hundruð barnshafandi kvenna, ófæddra barna og kvenna á barnseignaraldri á eyjunni.

Með ákvörðuninni geta yfirvöld meðal annars sóst eftir auknu fjármagni til að ráða og þjálfa atvinnulausa til að aðstoða í baráttu gegn útbreiðslunni og efla nauðsynlegt fræðslustarf.

Í frétt Reuters kemur fram að alls hafi 10.690 tilfelli zikaveiru nú verið skráð á Puerto Rico, þar á meðal 1.035 í barnshafandi konum. Líklegt er talið að raunverulegur fjöldi sýktra sé í raun mun meiri þar sem flestir þeir sem sýkjast fái engin sérstök einkenni og sækist ekki eftir að fara í rannsókn.

Zika-veiran berst með moskítóflugum af tegundinni Aedes. Helstu einkennin eru vægur hiti, útbrot, tárubólga, vöðva- eða liðverkir og almennur slappleiki, en þau gera oftast vart við sig tveimur til sjö dögum eftir bit og standa yfir í jafn langan tíma. Einungis einn af hverjum fjórum finnur fyrir einkennum. Þá eru jafnframt vísbendingar um að veiran valdi fósturskaða þannig að börn fæðist vansköpuð, eða með svokallað dverghöfuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×