Rakel Hönnudóttir, fyrirliði Breiðabliks, á góðar minningar frá eina bikarúrslitaleiknum sem hún hefur spilað.
Fyrir þremur árum mættu Blikar hennar gamla liði, Þór/KA, og skoraði Rakel markið sem tryggði Kópavogsliðinu bikarinn. Núna er Rakel fyrirliði Breiðabliks og vonast að sjálfsögðu eftir því að lyfta bikarnum í leikslok.
„Það er alltaf spennandi og skemmtilegt að spila bikarúrslitaleiki, sérstaklega á Laugardalsvelli,“ sagði Rakel á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ sem var haldin í tilefni af úrslitaleikjunum í Borgunarbikar karla og kvenna.
Andstæðingurinn í dag kemur frá Vestmannaeyjum og Rakel segir að Blika bíði erfitt verkefni.
Sjá einnig: Gjörólíkur leikstíll liðanna
„Þær eru með mjög gott lið og þetta verður jafn og spennandi leikur,“ sagði Rakel sem er að mestu ánægð með gengi Breiðabliks í sumar þó hún gráti nokkur töpuð stig í Pepsi-deildinni.
Það er nóg að gera hjá Blikum í ágúst en liðið spilar þá átta leiki, í deild, bikar og forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
„Þetta er þétt dagskrá og við þurfum að passa vel upp á okkur,“ sagði Rakel að lokum.
Bikarúrslitaleikur Breiðabliks og ÍBV hefst klukkan 19:15. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD og hefst útsending hálftíma fyrir leik. Þá verður einnig hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.
Rakel: Erum að mæta mjög góðu liði
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
