Innlent

Lilja Dögg vill leiða lista Framsóknar

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra vill leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavík.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra vill leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavík. fréttblaðið/Stefán
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, mun sækjast eftir 1. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í komandi kosningum í Reykjavíkurkjördæmi suður.

„Ég sem utanríkisráðherra hef verið að takast á við margvísleg verkefni og kynnst mjög góðu fólki, bæði frábæru embættisfólki hérna í ráðuneytinu, stjórnmálamönnum úr öllum flokkum, erlendum kollegum og fleirum og ég hef fundið fyrir velvild í minn garð. Það hafa margir hafa hvatt mig til þess að taka þátt í komandi þingkosningum, bæði pólitískir samherjar og svo fólk úr öðrum flokkum sem vill vinna að framgangi góðra mála. Mér þykir vænt um þessa hvatningu og þakka fyrir hana,“ segir Lilja í samtali við Fréttablaðið.

Lilja segir að undanfarin ár hafi íslenskt efnahagslíf verið að styrkjast og þannig hafi skapast grundvöllur til þess að ráðast í mikilvæg og krefjandi samfélagsverkefni sem hún vill taka þátt í.

Kosið verður á milli þeirra sem gefa kost á sér í fyrstu sætin á tvöföldu kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Reykjavík 27. ágúst.

Miðstjórnarfundur hjá flokknum er fyrirhugaður þann 10. september. „Þar verður farið yfir stöðu mála og hvort eigi að halda flokksþing,“ segir Lilja en flokksþing kýs forystuna. Hún segist ekki ætla að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×