Innlent

Ragnheiður Elín vill halda í 1. sætið í Suðurkjördæmi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir. visir/anton
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar-og viðskiptaráðherra sækist eftir 1. sætinu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem fram fer laugardaginn 10. september næstkomandi. Ragnheiður greinir frá framboðinu á sérstakri Facebook-síðu þess þar sem segir meðal annars:

„Ég hef verið oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í sjö ár og leitt flokkinn í kjördæminu í gegnum tvennar kosningar. Á þeim tíma hefur Suðurkjördæmi orðið eitt sterkasta vígi flokksins á landsvísu. Það hafa verið sannkölluð forréttindi að vinna með öllu því kröftuga og öfluga fólki sem í kjördæminu býr að fjölmörgum viðfangsefnum, stórum og smáum. Ég býð mig fram til áframhaldandi forystu í kjördæminu og óska eftir stuðningi í 1. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í prófkjöri flokksins 10. september.“

Þá rekur Ragnheiður árangur sinn á kjörtímabilinu sem iðnaðar-og viðskiptaráðherra. Segist hún hafa lagt áherslu á að stuðla að aukinni atvinnuuppbyggingu með því að bæta umgjörð atvinnulífsins, til að mynda með því að einfalda regluverk og efla nýsköpun.

Ferðaþjónustan og síaukinn ferðamannastraumur hafa mjög verið í brennidepli í ráðherratíð Ragnheiðar. Hún lagði fram frumvarp um náttúrupassa á vorþingi 2015 en það mætti mikilli andstöðu, ekki aðeins á Alþingi heldur einnig hjá hagsmunaaðilum í ferðaþjónustunni. Það varð því ekkert úr því að frumvarpið yrði að lögum en framboðssíðunni segir Ragnheiður þetta um málefni ferðaþjónustunnar:

„Málefni ferðaþjónustunnar eru komin í skýran farveg með stefnu til framtíðar - Vegvísi í ferðaþjónustu - og Stjórnstöð ferðamála og aldrei hefur meiri fjármunum verið veitt til uppbyggingar á fjölsóttum ferðamannastöðum eins og á þessu kjörtímabili, eða 2,3 milljörðum króna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×