Menning

Leika krefjandi tónlist með fólki sem elskar að spila

Magnús Guðmundsson skrifar
Benedikt og Gabri hafa verið afar ánægð með Íslandsferðina.
Benedikt og Gabri hafa verið afar ánægð með Íslandsferðina.
Úrvalshljómsveitin Verbandsjug­end­orchester Hochrhein er í heimsókn á Íslandi um þessar mundir. Alls eru um 70 hljóðfæraleikarar í hljómsveitinni á aldrinum 15-28 ára, handvaldir úr 120 blásarasveitum frá Hochrhein-héraðinu í suðurhluta Þýskalands. Markmið sveitarinnar er að gefa ungum hljóðfæraleikurum tækifæri til að leika krefjandi tónlist í háum gæðaflokki. Á efnisskránni eru því verk úr sinfónískum geira tónbókmenntanna og samtímatónlist í bland við léttari tónlist og djassaðar tónsmíðar. Stjórnandi Verbands­jugendorchester Hochrhein undanfarin 20 ár er Englendingurinn Julian Gibbons.

Benedikt, sem er 28 ára trompetleikari frá Lörrach, segir að mesti kosturinn við hljómsveitina sé að fá tækifæri til að spila flottari músík en hans heimahljómsveit ræður við að spila. Hann hefur spilað með VJO í níu ár og er núna á síðasta árinu sínu.

Gabri er 18 ára frá Laufenburg og hefur spilað á saxófón undanfarin níu ár. „Það er mikilvægt að ungir og hæfileikaríkir tónlistarmenn fái möguleika á að spila krefjandi tónverk með hópi fólks sem elskar tónlist og að spila á hljóðfæri.”

Síðustu tónleikar sveitarinnar í Íslandsferðinni verða í Hofi á Akureyri laugardaginn 27. ágúst kl. 16 og í Langholtskirkju mánudaginn 29. ágúst kl. 19.30.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×