Innlent

Guðlaugur Þór sækist eftir öðru sæti

Samúel Karl Ólason skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mynd/Håkon Broder Lund
Alþingismaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson sækist eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Guðlaugur gegni varaformennsku í fjárlaganefnd og er varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur setið á þingi fyrir flokkinn frá árinu 2003.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Guðlaugi.

Formennsku gegnir hann í þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins og í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES. Þá er Guðlaugur varaformaður AECR, samtaka íhalds- og umbótaflokka í Evrópu.

Guðlaugur Þór leggur áherslu á að á komandi kjörtímabili verði þeim árangri sem náðst hefur í ríkisfjármálunum á undanförnum árum fylgt fast eftir og að agi, ráðdeild og langtímahugsun verði höfð að leiðarljósi. Þá telur hann brýnt að innleiða lausnir fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði ásamt því að hlúa betur að eldri borgurum og öryrkjum.

Guðlaugur Þór hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2003 og er hann því einn reynslumesti þingmaður flokksins. Guðlaugur Þór hefur gegnt ófáum trúnaðarstöðum fyrir flokkinn. Hann var borgarfulltrúi frá 1998-2006 og gegndi ráðherraembætti frá 2007-2009, fyrst sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og síðar heilbrigðisráðherra.

Guðlaugur Þór er búsettur í Grafarvogi ásamt fjölskyldu sinni. Eiginkona Guðlaugs er Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri. Börn þeirra eru þau Þórður Ársæll Johnson og Sonja Dís Johnson en börn Ágústu úr fyrra hjónabandi eru þau Anna Ýr Johnson Hrafnsdóttir og Rafn Franklín Johnson Hrafnsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×