Menning

Þurfum að ræða hlutverk og tilgang listarinnar

Magnús Guðmundsson skrifar
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ, hlakkar til samtalsins við almenning á Fundi fólksins
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ, hlakkar til samtalsins við almenning á Fundi fólksins Visir/GVA
Samfélag án lista? Er yfirskrift pallborðsumræðna á Fundi fólksins. Á meðal þátttakenda er Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ, og hún segir að skólinn vilji taka þátt í að skapa heilbrigt samtal á milli stjórnmálamanna, skólans og almennings í landinu. „Þetta á ekki bara að snúast um okkar þarfir sem skóla heldur þarfir samfélagsins gagnvart því námi sem við erum að bjóða og er uppálagt að sinna. Við teljum að við getum gert þetta miklu betur en við gerum í dag með fjármagni og stuðningi stjórnmálaaflanna í landinu en það vantar töluvert upp á það. Það snýst allt um það sem er metið í krónum og aurum en það sem við viljum tala um á fundinum er hin hugmyndafræðilega áskorun sem blasir við okkur öllum á tuttugustu og fyrstu öldinni.

Skurður og bónus

Þessum vangaveltum stillum við upp undir þessum formerkjum: Samfélag án lista? Með því viljum við hvetja fólk til þess að gera sér í hugarlund hvernig líf okkar væri í raun og veru án hlutdeildar listanna. Við erum ekki bara að tala um að leggja niður þessar sjálfsögðu menningarstofnanir, heldur samfélag án útilistar, arkitektúrs, hönnunar á skipulagi, hljóðvist og þannig mætti áfram telja. Þetta er það sem aðrar þjóðir hafa gert að sínum auðæfum og eru að gera út á engu síður en t.d. fisk eða fallvötn.“

Aðspurð hvað valdi því hversu treglega gengur að fá Íslendinga til þess að sjá verðmæti í hinu listræna segir Fríða Björk að það stjórnist eflaust af skorti á hefð. „Þar af leiðandi er líka skortur á virðingu fyrir arfleifðinni. Við gætum þess ekki að varðveita hana af því að hún er svo ung. Listir sem fagsvið atvinnumanna eru ekki nema hundrað ára fyrirbrigði á Íslandi en eru kannski þúsund ára í öðrum samfélögum. Við erum þjóð sem sér helst ávinninginn í því að grafa skurð, eða greiða bónusa fyrir það eða hámarka ávöxtun í bönkum. Þannig að þetta snýst kannski um að snúa almenningsálitinu hvað varðar hina raunverulegu verðmætasköpun í samfélaginu.

Lélegir lobbýistar

Að auki þá snýst þetta ekki aðeins um hagræn áhrif. Við erum að þjálfa fólk inn í örast vaxandi atvinnugrein á Íslandi sem er skapandi greinar, með um fimmtán til tuttugu þúsund ársverk. Það er meira en landbúnaður og fiskiðnaður til samans. Enginn virðist þó vera að leggja mikið á sig til þess að styðja við þessa grein sem býður þó upp á mestu vaxtarmöguleikana til framtíðar. Við erum að reyna að beina sjónum að þessu enda erum við sá skóli á Íslandi sem er að mennta fólk beinlínis inn í þennan geira. Þannig að við viljum vekja athygli á vægi okkar og hlutverki í samfélaginu sem og í framtíðinni og í því að varðveita fortíðina.

Þess vegna viljum heyra skoðanir almennings og jafnframt skapa skilning á meðal stjórnmálamanna. Við erum ekki góðir lobbýistar, fólkið sem vinnur í listunum. Við þurfum að sýna fram á hvernig það sem við erum að gera verður að áþreifanlegum og óáþreifanlegum verðmætum.“

Launin afgangsstærð

Fríða Björk bendir meðal annars á að það skjóti skökku við að listamenn á Íslandi hafi þurft að gera kröfu til þess að vinna þeirra sé metin í samræmi við vinnuframlag. „Það virðist oft þykja sjálfsagt að gera það ekki. Ef við horfum bara til hagrænna þátta eins og Iceland Airwaves eða myndlistarsýninga í Listasafni Íslands, svo dæmi séu tekin, þá ber listamaðurinn minnst úr býtum. Það fá allir greitt, sendibílstjórinn, málarinn, rafvirkinn, tæknistjórinn og kynningarstjórinn en laun listamanna eru afgangsstærð.

Þá getum við velt fyrir okkur hvaða kröfur við gerum til listarinnar um fagmennsku því hún felst ekki aðeins í afurðinni heldur líka því að vera tilbúinn til þess að greiða fyrir hana það sem hún kostar í raun og veru. Öðruvísi getum við ekki fleytt listunum áfram sem eðlilegum og ríkulegum þætti í okkar daglega lífi. Listin er hluti af daglegu lífi okkar allra og við viljum að hún verði það áfram. Listir eru stór þáttur í samfélagsgerðinni og það ætti að taka tillit til þeirra sem raunverulegs hreyfiafls, bæði í hugmyndafræðilegum skilningi og þeim sóknarfærum sem er að finna í þessum skapandi geira. Við þurfum að taka umræðu um þessi mál og það verður forvitnilegt að gera það á laugardaginn í sal Norræna hússins klukkan16.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.