Innlent

Píratar þrefaldir í stjórnarmyndunarviðræðum

Ásgeir Erlendsson skrifar
Píratar hafa valið þrjá einstaklinga til að fara með stjórnarmyndunarumboð flokksins í tengslum við næstu kosningar. Ekki liggur fyrir hver yrði forsætisráðherraefni flokksins og tæki þar með við stjórnarmyndunarumboði frá forseta Íslands fengi flokkurinn umboð til að mynda stjórn.

Píratar héldu félagsfund í gær þar sem samþykkt var tillaga þess efnis að Einar Brynjólfsson, Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy fái stöðu umboðsmanns flokksins. Umboðið veitir þeim heimild til að fara í óformlegar stjórnarmyndunarþreifingar fyrir kosningar, auk formlegri viðræðna að kosningum loknum.

Tillagan gengur nú til almennrar atkvæðagreiðslu innan flokksins, að því búnu þarf framkvæmdaráð að samþykkja hana og loks þingflokkurinn.

„Við erum vísvitandi að reyna að halda fyrirkomulaginu mjög flötu, við viljum í rauninni reyna að uppræta hefðbundinn valdastrúktur og við mögulega getum,“ segir Smári McCarthy, oddviti Pírata í Suðurkjördæmi.

Að kosningum loknum hefur hefðin verið sú að forseti feli formanni þess stjórnmálaflokks stjórnarmyndunarumboð sem er best til þess fallinn að mynda ríkisstjórn.

Hvert ykkar þriggja myndi taka við þessu umboði forseta?

„Það er eiginlega bara öll þrjú helst, en það er eitthvað sem við þyrftum bara að ræða við forseta ef að til þess kæmi,“ svarar Smári.

Með þessu séu Píratar að búa sig undir að taka sæti í næstu ríkisstjórn.

„Það væru mikil mistök fyrir okkur að sjá ekki fram á þann möguleika eins og staðan er í dag,“ segir Smári.

Hann telur að það verði ekki erfiðleikum bundið að fela þremur flokksmönnum stjórnarmyndunarumboð. „Einræði er rosalega skilvirkt fyrirkomulag en við lítum svo á að lýðræðið sé betra fyrirkomulag.“

Hver er líklegastur á þessum tímapunkti að geta orðið forsætisráðherraefni Pírata?

„Ég hef bara ekki hugmynd um það,“ svarar Smári. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×