Menning

Sambandið á milli listamanna af ólíkum kynslóðum

Magnús Guðmundsson skrifar
Þorlákur Einarsson framan við tvö af verkum föður síns á sýningunni í Hverfisgalleríi.
Þorlákur Einarsson framan við tvö af verkum föður síns á sýningunni í Hverfisgalleríi. Visir/Vilhelm
Um þessar mundir eru tíu ár frá andláti Einars Þorlákssonar myndlistarmanns og af því tilefni verður opnuð á laugardaginn sýning á verkum hans í Hverfisgalleríi. Þorlákur Einarsson, sonur listamannsins, er á meðal aðstandenda sýningarinnar og hann segir að þó svo að hann sé sjálfur alla jafna fremur kenndur við gallerí i8 þá renni honum blóðið til skyldunnar að taka þátt í þessu verkefni fyrir föður sinn.

„Málið er með pabba, svo maður segir satt og rétt frá, að þá var frami hans ekkert gríðarlegur í lifanda lífi. Það voru kanónur í abstraktheiminum á þessum árum en menn vissu vel af honum. Það var reyndar mikil vinátta á milli pabba og Svavars Guðnasonar, sem ég mundi segja að hafi verið hans mentor þó að hann hafi svo farið í aðrar áttir. En svo eru myndlistarmenn af yngri kynslóðinni í dag sem vita vel af verkum föður míns og hafa verið að kinka til þeirra kolli. Þar má nefna Gabríelu Friðriksdóttur og Davíð Örn Halldórsson.“

Einar Þorláksson: Kynslóðabil, 1992. Akrýllitir á striga, 60 x 70 cm. Dánarbú Einars Þorlákssonar og Hverfisgallerí.
Einar Þorláksson var abstraktmálari en segja má að hann hafi alla tíð átt í ákveðinni glímu við myndmál abstraktlistarinnar og Þorlákur tekur undir það. „Aðalsteinn Ingólfsson hélt á sínum tíma gott erindi um list pabba og talaði þá um að ef það þyrfti að njörva verkin niður þá teldust þau til abstrakt-expressjónisma, en þau dansa ansi nálægt súrrealisma um tíma. Pabbi var mjög frakkur í litanotkun og ég hef ekki getað séð neitt svipað hjá kollegum hans af sömu kynslóð. En þetta eru hins vegar litir sem þú sérð í dag, t.d. hjá Davíð Erni sem ég nefndi áðan.“

Með sýningunni á verkum Einars er í raun fólgið ákveðið tækifæri fyrir listamenn af yngri kynslóðinni til þess að koma og sjá breiðara svið af verkum þessarar kynslóðar en hefur verið í aðgengilegt til þessa. Þorlákur tekur undir þetta og segir að tímasetningin sé líka góð fyrir þessa sýningu. „Mér finnst þessi verk tala nokkuð skýrt inn í margt af því sem er í gangi í dag og þá hjá mun yngra fólki. Fólki sem er jafnvel af kynslóðinni undir þrítugu og það er spennandi að fylgjast með slíkri þróun og sambandi á milli listamanna af mismunandi kynslóðum.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×