Innlent

Vissi af möguleikanum á tölvuinnbroti og kærði því ekki til lögreglu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð segist hafa fengið fár af því að auðvelt sé að hlera síma og brjótast inn í tölvur. Trúnaðarupplýsingar hafi því aldrei verið ræddar sím- eða bréfleiðis.
Sigmundur Davíð segist hafa fengið fár af því að auðvelt sé að hlera síma og brjótast inn í tölvur. Trúnaðarupplýsingar hafi því aldrei verið ræddar sím- eða bréfleiðis. vísir/friðrik þór
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokks, segist hafa vitað af möguleikanum á tölvuinnbroti og því hafi hann ekki tilkynnt lögreglu um meint innbrot í eigin tölvu, sem hann segir hafa átt sér stað í forsætisráðherratíð sinni. Hann fullyrðir að tæknimenn úr rekstrarfélagi stjórnarráðsins hafi staðfest að brotist hafi verið inn í tölvuna – sem stangast þó á við það sem rekstrarfélagið hefur sagt.

„Nei, ég gerði það nú ekki. Enda er maður ýmsu vanur úr pólitíkinni og hafði fengið þau ráð, ekki bara út af þessum stóru ráðum sem við var að eiga heldur almennt og gera ráð fyrir því, ráðherrar og jafnvel þingmenn, að allt sem við settum í tölvupóst væri lesið. Að einhverjir gætu séð það,“ sagði Sigmundur Davíð, aðspurður um hvort hann hefði kært meint tölvuinnbrot til lögreglu, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Kjarninn greindi frá því í dag að engin staðfest ummerki hefðu verið um að brotist hefði verið inn í tölvu Sigmundar Davíðs, samkvæmt svari sem fjölmiðillinn fékk frá rekstrarfélagi stjórnarráðsins. Hins vegar hafi Sigmundur óskað eftir því að tölvan hans yrðið skoðuð.

Sigmundur segir tæknimenn hafa yfirfarið tölvuna og farið fram á að harða disknum yrði skipt út.

„Mér barst póstur sem var látinn líta úr fyrir að hafa komið frá manni sem ég þekkti sem hafði svo ekki sent póstinn og í ljós kom að viðhengið sem var í honum var svona njósnaforrit til þess að fara inn í tölvu. Þetta kom í ljós eftir að ég fékk tæknimenn úr ráðuneytinu, eða rekstrarfélagi stjórnarráðsins, til þess að skoða tölvuna. Það er auðvitað ekkert hægt að átta sig á því hversu miklum upplýsingum viðkomandi hafði náð. Þeir sögðu mér bara að það eina örugga, fyrst þetta væri svona, væri að skipta um harða diskinn í tölvunni.“

Hlusta má á viðtalið við Sigmund Davíð í heild hér fyrir neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×