Innlent

Verðtrygging verður óþörf með myntráði

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þorsteinn Víglundsson, frambjóðandi Viðreisnar.
Þorsteinn Víglundsson, frambjóðandi Viðreisnar. vísir/gva
Festing gengis krónunnar við annan gjaldmiðil, til dæmis evru, með myntráði er betra fyrirkomulag en núverandi peningastefna og verðskuldar nánari skoðun. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Þorsteinn segir Viðreisn horfa til þriggja meginkosta við fyrirkomulagið.

Í fyrsta lagi segir hann fyrirkomulagið eiga að skila mikilli lækkun á nafnvöxtum lána á Íslandi enda leiti vextir innan myntráðs í átt að þeim grunnvöxtum sem miðað er við.

„Í öðru lagi myndi þetta þýða langþráðan gengisstöðugleika sem er auðvitað eitt stærsta efnahagsvandamálið sem við höfum glímt við hér áratugum saman,“ segir Þorsteinn.

Í þriðja lagi segir Þorsteinn að fyrirkomulagið myndi gera verðtryggingu lána óþarfa á endanum. „Hún ætti að hverfa. Þá værum við komin í mun einfaldara kerfi þar sem við værum fyrst og fremst með óverðtryggt lánaumhverfi.“ 

Þorsteinn segir þann vanda þó fyrir hendi að ekki yrði hægt að gengisfella gjaldmiðilinn. Hann segir hægt að vinna á móti því með stórauknum aga í hagstjórn svo hægt væri að koma í veg fyrir efnahagsáföll enda hafi undanfarin áföll komið vegna innlends ójafnvægis sökum slakrar hagstjórnar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×