Menning

Yngstu myndirnar eru af Hljómum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Mynd úr safni Jóns Kaldals ljósmyndara. Tekin í stofu Haraldar Árnasonar kaupmanns sem bjó við Laufásveg í Reykjavík.
Mynd úr safni Jóns Kaldals ljósmyndara. Tekin í stofu Haraldar Árnasonar kaupmanns sem bjó við Laufásveg í Reykjavík.
Myndir af þekktum Íslendingum einkenna sýninguna Portrett Kaldals sem opnuð verður í dag klukkan 15 í ljósmyndasal Þjóðminjasafnsins.

„Þetta eru myndir sem eru varðveittar hér í safninu. Þær hafa verið gefnar út á bók og sýndar tvívegis áður, fyrst 1966 og aftur 1996. En með því að sýna þær aftur og aftur halda þær ákveðinni stöðu sem sígilt myndefni,“ segir Inga Lára Baldvinsdóttir, sviðsstjóri ljósmyndasafns safnsins.

„Þær fyrstu eru teknar árið 1925 og þær yngstu eru af Hljómum, líklega frá því um 1968,“ lýsir hún.

Séra Arnór Árnason, Hofi, Skagafirði, var einn af þeim sem Jón Kaldal myndaði.
Sjálfur varð Jón Kaldal ljósmyndari þjóðfrægur í lifanda lífi. Þar réðu mestu einstakar portrettmyndir hans af listamönnum og framámönnum þjóðarinnar.

Inga Lára segir sumar þeirra mynda hafa prýtt forsíðu Vikunnar í kring um miðja öldina. Til dæmis mynd af séra Arnóri Árnasyni, sem er táknmynd fyrir sýninguna nú.

Hún telur ljóst að Kaldal hafi verið einstakar myndir ástfólgnari en aðrar.

„Þegar hann varð sjötugur 1966 gerði hann heila sýningu af stækkuðum myndum og það efni er uppistaðan í því sem er sett upp núna. Sú sýning var í Casa Nova í MR. Það var svo mikill skortur á sýningarrými í Reykjavík þá að salur þar var notaður fyrst eftir að hann var opnaður.“

“Þarna er fræga fólkið!” segir Inga Lára um sýninguna Portrett Kaldals.Vísir/Hanna
En ljósmyndarinn átti sér fleiri hliðar og þær birtast á sýningunni Kaldal í tíma og rúmi sem er líka opnuð í dag á veggnum framan við ljósmyndasalinn. Inga Lára lýsir því sem þar ber fyrir augu.

 „Það tíðkaðist til dæmis hjá betri borgurum í Reykjavík að láta mynda glæsileg heimili sín og á veggnum er úrval af rýmismyndum sem eru teknar í heimavistarskólum, í fínum stássstofum borgarbúa og verslunum.

Þetta eru myndir frá tólf ára tímabili, nýjar kópíur sem ljósmyndari safnsins, Ívar Brynjólfsson, hefur gert eftir glerplötum Jóns Kaldals sem við geymum hér í safninu í tugþúsundavís. Þær hafa aldrei verið sýndar áður.“

Greinin birtist fyrst 24. september 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×