Innlent

Bjarni: „Galið“ að hafa inngöngu í ESB á stefnuskránni fyrir kosningar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í kappræðum RÚV í kvöld „ágætt“ að Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar gengist við því að flokkurinn hans vilji ganga inn í Evrópusambandið en varpaði jafnframt fram þeirri spurningu hvers vegna væri verið að ræða inngöngu í ESB nú. Sagði Bjarni að það væri „galið“ að ganga til kosninga nú með aðild að sambandinu á stefnuskránni þar sem það væri þvert á vilja þjóðarinnar.

Evrópusambandið var ekki mikið til umræðu í kappræðunum í kvöld en komst þá á dagskrá þegar Heiðar Örn Sigurfinnsson spurði Benedikt hvort Viðreisn ætlaði að berjast fyrir inngöngu í Evrópusambandið.

„Við munum berjast fyrir því og það er nú bara mjög gott að þú spyrð um þetta því það var helsta loforð þessara manna sem standa hérna sitt hvoru megin við mig...“ sagði Benedikt en hann stóð á milli Bjarna og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og heyrðist í Bjarna: „Það er rangt.“

„Bíddu, ég er ekki búinn að segja hvert loforðið var,“ sagði Benedikt og sagði svo að Bjarni hefði tekið það fram fyrir kosningar að Sjálfstæðisflokkurinn myndi berjast fyrir því að kosið yrði um aðild að ESB á fyrri hluta kjörtímabilsins, en eins og kunnugt er töluðu Sjálfstæðismenn ítrekað um það fyrir síðustu kosningar að þjóðin fengi að kjósa um það hvort haldið yrði áfram með aðildarviðræðurnar sem hófust í tíð ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar.

Þjóðaratkvæðagreiðsla vegna ESB ekki helsta loforðið

Benedikt sagði þetta loforð hafa verið svo heilagt að það hafi verið sérstaklega tekið fram að það yrði staðið við það.

„Svo er allt í einu fundinn upp einhver „pólitískur ómöguleiki.“ Er það nema von að fólk vantreysti slíku stjórnmálabakstri þegar allir flokkarnir hver á fætur bregðast við með þessum hætti? Það er krafa um breytingar, það er krafa um að byggja upp traust,“ sagði Benedikt.

Bjarni brást við þessum orðum hans og sagði það rangt að þjóðaratkvæðagreiðsla vegna ESB hafi verið helsta loforð Sjálfstæðisflokksins fyrir seinustu kosningar.

„Okkar loforð hefur staðið til þess að halda íslandi utan Evrópusambandsins og það er ágætt að Benedikt gengst við því hér að hans flokkur vill ganga í Evrópusambandið vegna þess að það hefur verið alltof mikið af viðræðusinnum í Evrópumálum á íslandi,“ sagði Bjarni.

Hann sagði svo að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að fara inn í ESB en inntur eftir loforðinu um þjóðaratkvæðagreiðslu sagði hann:

„Ég hef margoft farið yfir það hvernig það mál hefur verið hvernig dettur mönnum í hug að ein ríkisstjórn þar sem að enginn ráðherra styður inngöngu í Evrópusambandið og það er ekki meirihluti fyrir því á Alþingi að ganga í Evrópusambandið að slík ríkisstjórn eigi að fara að setja af stað viðræður við Evrópusambandið þetta á maður ekki að þurfa að ræða hér af einhverri alvöru þetta er svo augljóst og það sem er líka augljóst er það að okkar stefna og það er í samræmi við vilja landsmanna.“

Flokkarnir sem hófu aðildarviðræðurnar „rassskelltir“ í seinustu kosningum

Aðspurður hvernig nokkrum manni hefði þá dottið í hug að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir kosningar sagði Bjarni að kjarninn í því hefði verið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi viljugur til þess að beita þjóðaratkvæðagreiðslum til þess að höggva á hnúta þegar þess hafi þurft en ESB-málið hafi atvikast eins og það gerði. Hann sagði síðan að úrslit síðustu kosninga hafa verið skýr; flokkarnir sem hafi talað gegn því að fara í ESB hafi unnið en flokkarnir sem hófu aðildarviðræðurnar hafi verið „rassskelltir í kosningunum.“

„Þetta er svo einfalt og hefur einhver séð einhvern tímann könnun um það að Íslendingar vilji ganga í Evrópusambandið hvers vegna er verið að ræða þetta mál og hvers vegna er verið að ganga til kosninga með það sem stefnu að ganga í Evrópusambandið þvert á vilja landsmanna. Það er auðvitað galið og meira að segja hörðustu Evrópusinnar hafa engan áhuga á því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×