Ekki einkamál Íslendinga Þorvaldur Gylfason skrifar 22. september 2016 07:00 Það var fyrir nokkru í Kíev, höfuðborg Úkraínu, að ég spurði heimamenn hverjum augum þeir litu horfur lands síns fram í tímann. Ég hafði kvöldið áður ekið fram hjá fjölmennum mótmælum við þinghúsið í hjarta borgarinnar þar eð enn eitt spillingarmál hafði gosið upp. Sá sem varð fyrir svörum sagði: Aðeins tvennt kemur til greina. Annaðhvort ná nauðsynlegar umbætur fram að ganga í friði og spekt eða þær verða innleiddar með öðrum hætti. Þriðji kosturinn, engar umbætur, óbreytt ástand, kemur ekki til álita, sagði hann. Þolinmæði okkar er á þrotum. Mér varð hugsað hingað heim þar sem vantraust kjósenda í garð stjórnmálamanna hefur frá hruni mælzt litlu minna en í Úkraínu. Þjóðarpúlsi Capacents sögðust að meðaltali 41% kjósenda treysta Alþingi árin 1995-2008 en aðeins 15% að meðaltali sögðust treysta Alþingi 2009-2016. Nýjasta mælingin frá því í febrúar 2016 er 17%. Fimm kjósendur af hverjum sex vantreysta Alþingi. Frá hruni hefur Alþingi ásamt bankakerfinu og dómskerfinu skrapað botninn í traustsmælingum Capacents og MMR. Til samanburðar segjast 20% Úkraínumanna treysta þinginu í Kíev. Aðeins rússneskir fjölmiðlar njóta minna trausts þar í landi (5%).Forherðing Alþingi tekur engum teljandi framförum enn sem komið er þrátt fyrir samþykkt svohljóðandi ályktunar með öllum greiddum atkvæðum 28. september 2010: „Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur. Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“ Í ályktun þingsins birtist langur loforðalisti sem hefst á loforði um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1944. Ekkert bólar enn á efndum. Forherðingin virðist alger. Báðir ríkisstjórnarflokkarnir tefla nú fram lykilframbjóðendum beint upp úr Panama-skjölunum eins og ekkert hafi í skorizt. Nýja stjórnarskráin getur verið stolt af slíkum andstæðingum.Lýðræði á undir högg að sækja Virðingarleysi Alþingis gagnvart úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 felur í sér grafalvarlaga aðför að lýðræðinu í landinu. Það hefur aldrei áður gerzt nokkurs staðar í nálægum löndum að löggjafarsamkoman grafi undan nýrri stjórnarskrá sem kjósendur hafa lýst stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi aðför einkum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar að lýðræðinu er að sönnu einsdæmi í okkar heimshluta. Það kann að byrgja sumum sýn á alvöru málsins að síðustu ár hefur hallað á lýðræði um heiminn í fyrsta sinn frá 1980 eins og ég lýsti hér á þessum stað 5. marz 2015. Lýðræði breiddist hratt út um heiminn 1945-1960, hægði ferðina 1960-1980 og tók síðan fjörkipp aftur 1980-2000, ekki sízt eftir hrun Sovétríkjanna 1991. Frá aldamótunum 2000 hefur lýðræðisríkjum heimsins ekki fjölgað, heldur hefur fáræðisríkjum fjölgað til jafns við fækkun einræðisríkja. Lýðræði og mannréttindi eiga nú upp á síðkastið jafnvel undir högg að sækja innan ESB. Ungverska þingið hefur sett landinu stjórnarskrá með mannréttindaákvæðum sem standast ekki lágmarkskröfur ESB. Pólska ríkisstjórnin hefur sett lög sem skerða mannréttindi. Fjármálaráðherra Grikklands fyrri hluta árs 2015 og fv. hagstofustjóri landsins, blásaklausir báðir tveir, eiga yfir höfði sér ákærur fyrir landráð. Hálfgildings fasistaflokkar hafa fært sig upp á skaftið í Evrópu og gera m.a. út á óvild í garð erlendra flóttamanna. Brot gegn lýðræði og mannréttindum á Íslandi kunna í þessu samhengi að virðast saklausari en ella. Svo er þó ekki, heldur eru þau þvert á móti þeim mun skuggalegri.Alþingi gegn mannréttindum Samt kann hjálp að eiga eftir að berast utan úr heimi ef Alþingi lætur sér ekki segjast. Ef Alþingi hefði gert sig sekt um það eitt að standa í vegi fyrir gildistöku nýrrar stjórnarskrár væri engrar hjálpar að vænta frá útlöndum. En Alþingi hefur nú í bráðum fjögur ár staðið í vegi fyrir gildistöku nýrrar stjórnarskrár sem geymir mikilvæg ákvæði um aukin mannréttindi, m.a. jafnt vægi atkvæða og auðlindir í þjóðareigu. Mannréttindanefnd SÞ birti 2007 bindandi álit þess efnis að Alþingi bæri að afnema alla mismunun, þ.e. mannréttindabrot, úr fiskveiðistjórnarkerfinu og bæta tjónþolum skaðann. Alþingi hefur ekki enn virt tilmæli nefndarinnar þótt því beri samningsbundin skylda til að verða við þeim. Nefndinni kann því að berast ný kæra vegna þess að Alþingi stendur enn í vegi fyrir eflingu mannréttinda á Íslandi.Sýnum heiminum Hér hangir þó fleira á spýtunni en framgangur lýðræðis og mannréttinda á Íslandi eins og Lawrence Lessig stjórnlagaprófessor í Harvard-háskóla lýsti vel á opnum fundi stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi í Norræna húsinu um daginn. Þar eð lýðræði á nú víða undir högg að sækja mega Íslendingar fyrir enga muni gefast upp heldur þurfa þeir að sýna umheiminum svart á hvítu að þeir sömdu ekki og samþykktu lýðræðislegustu stjórnarskrá sem nokkurn tímann hefur litið dagsins ljós til þess eins að henni yrði tortímt.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Ert þú með geðsjúkdóm? Mjög líklega... Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun „Hvenær var þetta samtal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn Halla Hrund Logadóttir Skoðun Geðheilbrigðiskerfi án sálfræðinga, hvernig hljómar það? María Mjöll Björnsdóttir Skoðun Þeir sem þurfa ekki að takast á við afleiðingar gjörða sinna Davíð Már Sigurðsson Skoðun Fær ESB Ísland í jólagjöf? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Náttúruspjöll í sveitarfélagi ársins Kjartan H. Ágústsson Skoðun Tapast hafa sveitarstjórnarmenn af öllu landinu Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Kjósum Rósu á þing Linda Baldvinsdóttir Skoðun Frekar vandræðalegt Ólafur Hauksson Skoðun Kópavogur lækkar skatta á íbúa Orri Hlöðversson,Gunnar Sær Ragnarsson Skoðun
Það var fyrir nokkru í Kíev, höfuðborg Úkraínu, að ég spurði heimamenn hverjum augum þeir litu horfur lands síns fram í tímann. Ég hafði kvöldið áður ekið fram hjá fjölmennum mótmælum við þinghúsið í hjarta borgarinnar þar eð enn eitt spillingarmál hafði gosið upp. Sá sem varð fyrir svörum sagði: Aðeins tvennt kemur til greina. Annaðhvort ná nauðsynlegar umbætur fram að ganga í friði og spekt eða þær verða innleiddar með öðrum hætti. Þriðji kosturinn, engar umbætur, óbreytt ástand, kemur ekki til álita, sagði hann. Þolinmæði okkar er á þrotum. Mér varð hugsað hingað heim þar sem vantraust kjósenda í garð stjórnmálamanna hefur frá hruni mælzt litlu minna en í Úkraínu. Þjóðarpúlsi Capacents sögðust að meðaltali 41% kjósenda treysta Alþingi árin 1995-2008 en aðeins 15% að meðaltali sögðust treysta Alþingi 2009-2016. Nýjasta mælingin frá því í febrúar 2016 er 17%. Fimm kjósendur af hverjum sex vantreysta Alþingi. Frá hruni hefur Alþingi ásamt bankakerfinu og dómskerfinu skrapað botninn í traustsmælingum Capacents og MMR. Til samanburðar segjast 20% Úkraínumanna treysta þinginu í Kíev. Aðeins rússneskir fjölmiðlar njóta minna trausts þar í landi (5%).Forherðing Alþingi tekur engum teljandi framförum enn sem komið er þrátt fyrir samþykkt svohljóðandi ályktunar með öllum greiddum atkvæðum 28. september 2010: „Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur. Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“ Í ályktun þingsins birtist langur loforðalisti sem hefst á loforði um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá 1944. Ekkert bólar enn á efndum. Forherðingin virðist alger. Báðir ríkisstjórnarflokkarnir tefla nú fram lykilframbjóðendum beint upp úr Panama-skjölunum eins og ekkert hafi í skorizt. Nýja stjórnarskráin getur verið stolt af slíkum andstæðingum.Lýðræði á undir högg að sækja Virðingarleysi Alþingis gagnvart úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 felur í sér grafalvarlaga aðför að lýðræðinu í landinu. Það hefur aldrei áður gerzt nokkurs staðar í nálægum löndum að löggjafarsamkoman grafi undan nýrri stjórnarskrá sem kjósendur hafa lýst stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi aðför einkum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar að lýðræðinu er að sönnu einsdæmi í okkar heimshluta. Það kann að byrgja sumum sýn á alvöru málsins að síðustu ár hefur hallað á lýðræði um heiminn í fyrsta sinn frá 1980 eins og ég lýsti hér á þessum stað 5. marz 2015. Lýðræði breiddist hratt út um heiminn 1945-1960, hægði ferðina 1960-1980 og tók síðan fjörkipp aftur 1980-2000, ekki sízt eftir hrun Sovétríkjanna 1991. Frá aldamótunum 2000 hefur lýðræðisríkjum heimsins ekki fjölgað, heldur hefur fáræðisríkjum fjölgað til jafns við fækkun einræðisríkja. Lýðræði og mannréttindi eiga nú upp á síðkastið jafnvel undir högg að sækja innan ESB. Ungverska þingið hefur sett landinu stjórnarskrá með mannréttindaákvæðum sem standast ekki lágmarkskröfur ESB. Pólska ríkisstjórnin hefur sett lög sem skerða mannréttindi. Fjármálaráðherra Grikklands fyrri hluta árs 2015 og fv. hagstofustjóri landsins, blásaklausir báðir tveir, eiga yfir höfði sér ákærur fyrir landráð. Hálfgildings fasistaflokkar hafa fært sig upp á skaftið í Evrópu og gera m.a. út á óvild í garð erlendra flóttamanna. Brot gegn lýðræði og mannréttindum á Íslandi kunna í þessu samhengi að virðast saklausari en ella. Svo er þó ekki, heldur eru þau þvert á móti þeim mun skuggalegri.Alþingi gegn mannréttindum Samt kann hjálp að eiga eftir að berast utan úr heimi ef Alþingi lætur sér ekki segjast. Ef Alþingi hefði gert sig sekt um það eitt að standa í vegi fyrir gildistöku nýrrar stjórnarskrár væri engrar hjálpar að vænta frá útlöndum. En Alþingi hefur nú í bráðum fjögur ár staðið í vegi fyrir gildistöku nýrrar stjórnarskrár sem geymir mikilvæg ákvæði um aukin mannréttindi, m.a. jafnt vægi atkvæða og auðlindir í þjóðareigu. Mannréttindanefnd SÞ birti 2007 bindandi álit þess efnis að Alþingi bæri að afnema alla mismunun, þ.e. mannréttindabrot, úr fiskveiðistjórnarkerfinu og bæta tjónþolum skaðann. Alþingi hefur ekki enn virt tilmæli nefndarinnar þótt því beri samningsbundin skylda til að verða við þeim. Nefndinni kann því að berast ný kæra vegna þess að Alþingi stendur enn í vegi fyrir eflingu mannréttinda á Íslandi.Sýnum heiminum Hér hangir þó fleira á spýtunni en framgangur lýðræðis og mannréttinda á Íslandi eins og Lawrence Lessig stjórnlagaprófessor í Harvard-háskóla lýsti vel á opnum fundi stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi í Norræna húsinu um daginn. Þar eð lýðræði á nú víða undir högg að sækja mega Íslendingar fyrir enga muni gefast upp heldur þurfa þeir að sýna umheiminum svart á hvítu að þeir sömdu ekki og samþykktu lýðræðislegustu stjórnarskrá sem nokkurn tímann hefur litið dagsins ljós til þess eins að henni yrði tortímt.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.