Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hafa valið kvikmyndina Þresti eftir Rúnar Rúnarsson sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári.
Þrestir mun keppa fyrir hönd Íslands um Óskarsverðlaunin fyrir bestu kvikmyndina á erlendu tungumáli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni. Þrestir hlaut meirihluta atkvæða Akademíumeðlima og lauk kosningu á miðnætti í gær.
Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 sem besta erlenda kvikmyndin og Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson var tilnefnd árið 2006 í flokknum besta leikna stuttmyndin. Ef Þrestir hlýtur tilnefningu er það þá í annað skiptið sem Rúnar er tilnefndur til Óskarsverðlauna.
„Þrestir er ljóðrænt drama sem fjallar um Ara, 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að dvelja hjá föður sínum um tíma. Samband hans við föður sinn er erfitt og margt hefur breyst í plássinu þar sem hann ólst upp,“ segir í tilkynningu Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar.
Bíó og sjónvarp