Innlent

Sigmundur Davíð: Hugsa sem minnst um hvað gerist ef illa fer

Heimir Már Pétursson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist ekki hafa hugsað um hvað taki við verði hann ekki endurkjörinn formaður flokksins. Flokksþing flokksins, þar sem formannskjör fer fram, hefst á morgun. Sigmundur segist bjartsýnn á að ná endurkjöri.

„Ég hef alltaf reynt bjartsýnn frá því að ég byrjaði í pólitíkinni. Það var mikil bjartsýni hjá mér á sínum tíma að fara út í pólitík nánast upp úr þurru. Ég hef reynt að halda í þá bjartsýni bæði í mínum pólitísku störfum en einnig í vinnunni. sem stjórnmálamaður og ég held mig við það,“ sagði Sigmundur Davíð í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Mikil spenna ríkir fyrir flokksþingi sem fram fer í Háskólabíó um helgina. Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður flokksins, tilkynnti fyrir viku síðan að hann myndi bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð. Telur Sigmundur ljóst að hvernig sem fari sé mikilvægt að menn reyni að græða sárin sem opnast hafi undafarna daga.

„Það mun auðvitað þurfa eftir svona átök að leggja sig fram um að ná liðinu saman. Ég hef áður átt í hörðum átökum innan flokks og þá setti ég allt á fullt í að ná mönnum saman og það mun þurfa að gera það líka í framhaldi af þessum flokksþingi enda er stutt í kosningar,“ segir Sigmundur Davíð sem segist ekki hafa íhugað hvað taki við nái hann ekki endurkjöri sem formaður flokksins.

„Til þess að viðhalda þessari bjartsýni sem ég var að tala um reyni ég að hugsa sem minnst um hvað gerist ef þetta fer illa og vona það besta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×