Innlent

Uppbrot fjórflokksins blasir við

Una Sighvatsdóttir skrifar
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir allt opið fyrir stjórnmálaflokkana ennþá þótt stutt sé til kosninga.
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir allt opið fyrir stjórnmálaflokkana ennþá þótt stutt sé til kosninga. VÍSIR/HÖRÐUR SVEINSSON
Til að tryggja sér sæti á Alþingi þurfa íslenskir stjórnmálaflokkar að ná minnst 5% fylgi í kosningum. Þetta er nokkuð hærri þröskuldur en annars staðar á Norðurlöndum.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt er í dag fær Björt framtíð 6,9% fylgi, sem er það mesta sem flokkurinn hefur mælst með frá því í mars 2015. Viðreisn mælist einnig með 6,9% og fengju báðir flokkarnir því þingsæti, auk Pírata og rótgrónari flokka sem myndað hafa fjórflokkinn svo kallaða.

Einstök staða sem við höfum ekki séð áður

Eiríkur Bergmann stjórnamálafræðingur segir allmikil tíðindi í þessari könnun. „Ég myndi segja að það væru allmikil tíðindi í þessari könnun, „Annað er jú það hversu mikið flökt er á fylginu. Svona nálægt kosningum þá er þetta óvanalega mikið flökt og það er engu hægt að slá föstu nú þegar,“ segir Eriíkur.

„Hinsvegar er að Björt framtíð rís upp og vel yfir þröskuldinn í þessari könnun og þá blasir við sú einstaka staða sem við höfum ekki séð áður, gangi þessi könnun eftir, að á næsta kjörtímabili verði sjö flokkar á Alþingi. Það felur í sér grundvallarbreytingu á flokkakerfinu.“

Gömlu lögmálin gilda ekki lengur

Slík oddastaða með sjö flokkum gæti leitt til þess að á Alþingi myndist skýrari fylkingar til hægri og vinstri líkt og gerist í norræna flokkakerfinu, að mati Eiríks. Í öllu falli virðist blasa við uppbrot þess kerfis sem Íslendingar hafa lengst af búið við en byrjaði að riða til falls í kjölfar efnahagshrunsins. Eiríkur segir sveiflurnar á fylginu allavega það miklar að gömlu lögmálin gildi greinilega ekki jafnt og þau gerðu í eitt sinn.

„Fjórflokkskerfið sem hefur tryggt þessum fjórum flokkum alræðið í íslenskum stjórnmálum, það getur verið að líða undir lok og fleiri flokkar að brjóta sér leið inn í þetta kerfi þannig að um eðlisbreytingu á því geti orðið. Það er vel mögulegt samkvæmt þessum könnunum. En svo ef maður les þessar breytingar í samspili hver við aðra sjáum við að það eru töluvert miklar sveiflur þarna á milli þannig að staðan er ennþá verulega óviss “

Óvenjumargir óákveðnir

Óvissan felst ekki síst í því að aðeins tæp 57% þeirra sem náðist í tóku afstöðu. Þótt aðeins séu 23 dagar til kosninga virðast því óvenjumargir enn vera óákveðnir, og helgast líklega af því hve kosningarnar ber að með óvenjulegum hætti og á óvenjulegum tíma.

„Þannig að það getur vel verið að upp úr kjörkössunum komi önnur mynd en blasir við okkur í dag. Allavega virðist vera opið færi fyrir stjórnmálaflokkana ennþá, þessi markaður er einhvern veginn ekkert að lokast," segir Eiríkur Bergmann.


Tengdar fréttir

Píratar tapa miklu fylgi en Sjálfstæðisflokkur eykur við sig

Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærsti flokkurinn i nýrri könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Píratar tapa miklu fylgi. Framsóknarflokkurinn og VG jafnstórir. Þingmaður Framsóknarflokkinn segir flokkinn eiga meira inni.

Björt framtíð fengi kjörinn þingmann

Björt framtíð hefur ekki mælst með meira fylgi í könnun Fréttablaðsins síðan í mars í fyrra. Þingmaður flokksins segist finna jákvæð viðbrögð við þeim málum sem flokkurinn hefur unnið í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×