Innlent

„Ekki eftir miklu að slægjast“

Samúel Karl Ólason skrifar
Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson. Vísir/GVA
„Fyrir frjálslyndan flokk sem vill stuðla að breytingum er ekki eftir miklu að slægjast í samstarfi við flokka sem lita á það sem megin hlutverk sitt að standa vörð um óbreytt ástand í þessum málaflokkum.“ 

Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, oddviti Viðreisnar í Reykjavík norður. Tilefni ummæla Þorsteins er pistill fjölmiðlarýnisins Egils Helgasonar um að líklegasta ríkisstjórnin verði mynduð af Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og Viðreisn.

Niðurstöður Þjóðarpúls Gallups, sem birtur var síðast í dag, sýnir flokkana þrjá með samanlagt 45 prósnet fylgi ef gengið væri til kosninga í dag.

Þorsteinn segir pælingar sem þessar vera vinsælar, þ.e. að halda á lofti tengslum Viðreisnar við Sjálfstæðisflokkinn en í röðum Viðreisnar má finna fyrrverandi framafólk úr Sjálfstæðisflokknum. Má nefna Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Þorstein Pálsson sem dæmi.

Hins vegar er verulegur munur á áherslum flokkanna að sögn Þorsteins og nefnir hann sérstaklega sjávarútveg, landbúnað, Evrópumál og stjórnarskrá.

„Í þessum málaflokkum er Viðreisn mun nær Bjartri framtíð og Pírötum,“ segir Þorsteinn.

Þorgerður Katrín hefur einnig tjáð sig um pistil Egils og leggur áherslu á að Viðreisn sé ekki komin fram á sviðið til að bjarga ríkisstjórninni frá falli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×