Innlent

Sigurður Ingi: "Ég vil að við göngum út sem ein fjölskylda“

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Sigurður Ingi hlaut 52 prósent atkvæða
Sigurður Ingi hlaut 52 prósent atkvæða vísir/ernir
„Þetta eru leikreglur lýðræðisins,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson er hann steig í pontu til þess að ávarpa flokkssystkini sín eftir að tilkynnt var um sigur hans í kjöri til formanns flokksins.

Sigurður Ingi hlaut rúmlega 52 prósent atkvæða á flokksþingi Framsóknarmanna í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlaut rúmlega 46 prósent atkvæða. 

Í ræðu sinni notaði Sigurður Ingi tækifærið og þakkaði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir starf sitt. „Ég bið ykkur um að standa upp og gefa Sigmundi Davíð gott klapp,“ sagði Sigurður. Í kjölfarið hófst mikið lófatak til heiðurs Sigmundi Davíð.

Sigurður Ingi fullyrti að flokkurinn ætti verk að vinna en lýsti því yfir að sameinuð gætu þau unnið kosningarnar þann 29. október. „Ég vil að við göngum út sem ein fjölskylda,“ sagði hann.  

Sigurður bað að lokum viðstadda um að klappa fyrir sjálfum sér og takast í hendur. „Ég ætla að biðja ykkur að gera eitt fyrir mig sem við erum ekki vön að gera,“ sagði hann. „Ég ætla að biðja ykkur um að standa upp og taka í hönd þeirra sem situr við hliðina á ykkur og ég held að við getum sent strauma framsóknarmennskunnar á milli okkar,“ sagði Sigurður Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×