Veigar Páll Gunnarsson skoraði tvö mörk í 4-1 sigri Stjörunnar á Víkingi Ólafsvík í dag en leikurinn var þó ekki kveðjuleikur hans.
„Það er svolítil óvissa hjá mér eins og er en ég vonandi sýndi það í dag að ég eigi eitthvað eftir. Mér líður eins og ég eigi allaveganna eitt ár í viðbót og ég ætla að gera það,“ sagði Veigar Páll sem verður samningslaus eftir tímabilið.
Hann segir að sigurinn í dag hafi verið góður enda tryggði hann Stjörunni Evrópusæti.
„Þetta var frekar jafn fyrri hálfleikur og við komumst ekki almennilega í gang en vorum heppnir að fara inn með 1-0 í hálfleik. Í seinni hálfleik opnaðist leikurinn og við nýttum okkur það og vinnum sannfærandi sigur.“
„Það er rétt að deildin spilaðist öll dálítið furðulega, ekkert lið sem var sannfærandi í ár sem hentaði okkur mjög vel þar sem við höfum ekki heldur verið sannfærandi en endum engu að síður í öðru sæti. Við tökum því klárlega fagnandi“, sagði Veigar Páll um tímabilið sem var að ljúka.

