Innlent

Benedikt útilokar ríkisstjórnarsamstarf með núverandi stjórnarflokkum

Jakob Bjarnar skrifar
Benedikt segir Sjálfstæðisflokkinn vera Framsóknarflokk.
Benedikt segir Sjálfstæðisflokkinn vera Framsóknarflokk. visir/gva
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, útilokar þann möguleika að Viðreisn myndi stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki að loknum kosningum.

Benedikt var í viðtali í þættinum Harmageddon á X-inu í morgun. Benedikt hefur mátt svara fyrir það allt frá því að flokkurinn lét að sér kveða í kosningabaráttu hvort Viðreisn væri ekki hækja Sjálfstæðisflokksins eða einhvers konar útgáfa af honum? Enda má segja að tilurð flokksins megi rekja til kosningasvika Sjálfstæðisflokksins í ESB-aðildarviðræðumálinu og margir stofnfélaga koma úr Sjálfstæðisflokknum.

Útspil Pírata um síðustu helgi, þess efnis að fram fari viðræður milli þeirra, Viðreisnar, Samfylkingar og VG um einskonar kosningabandalag fyrir kosningar vakti mikla athygli. Viðreisn hefur hins vegar tekið fremur dræmt í slíkt boð sem hefur vakið þær raddir að Viðreisn hafi það eitt í hyggju að vera þriðja hjól í ríkisstjórnarsamstarfi núverandi stjórnarflokka.

Benedikt tók af öll tvímæli í morgun í samtali við þá Frosta Logason og Mána Pétursson; sagði áherslur Viðreisnar í veigamiklum atriðum frábrugðnar þeim sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt uppúr með á yfirstandandi kjörtímabili. Reyndar í öllum veigamestu málum. „Það verður ekki slík ríkisstjórn,“ sagði Benedikt þegar gengið var á hann með það að atkvæði greitt Viðreisn væri ekki atkvæði greitt núverandi stjórn.

Þá vakti athygli að Benedikt kallaði Sjálfstæðisflokkinn Framsóknarflokk í þættinum Forystusætið á Ríkisútvarpinu í gærkvöldi. Hann vandaði þeim reyndar ekki kveðjurnar og sagði að Viðreisn væri ekki stofnað með það fyrir augum að næla sér í ráðherrastóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×