Innlent

Formannskosningin hefur ekki verið kærð

Sveinn Arnarsson skrifar
Tvær vikur eru til kosninga. Sigurður Ingi og Sigmundur hafa ekki ræst við síðan á flokksþinginu.
Tvær vikur eru til kosninga. Sigurður Ingi og Sigmundur hafa ekki ræst við síðan á flokksþinginu.
Engin formleg kæra hefur borist Framsóknarflokknum vegna formannskjörs flokksins á Flokksþinginu í Háskólabíói þann 2. október síðastliðinn. Þetta hefur Fréttablaðið fengið staðfest á skrifstofu Framsóknarflokksins.

Framsóknarflokknum hefur þó borist ein ósk um að rannsakað yrði kjörbréf einstaklings sem taldi sig hafa átt að vera aðalmaður í Reykjavík. Hins vegar reyndist hún vera á lista yfir varamenn og því ekki haft kjörgengi í formmannskosningunum.

Heimildir Fréttablaðsins herma að laganefnd flokksins sé með málið til umfjöllunar og muni skoða málið ofan í kjölinn.

Forsvarsmenn aðildarfélaga skila inn listum til kjörbréfanefndar flokksins um aðal- og varamenn á flokksþinginu. Aðeins aðalmenn voru kjörgengir í formannskosningunum.

Formannskosningin hefur verið mjög umdeild og sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem féll sem formaður flokksins, að rútur með fólki hafi byrjað að streyma að Háskólabíói í þann mun sem formannskosningin hófst.

Sigmundur og Siguður Ingi hafa ekki enn talað saman síðan á flokksþinginu í upphafi mánaðarins og ekki hefur verið settur á fundur milli þeirra eða þeir talast saman símleiðis. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×