Bíó og sjónvarp

Amber Heard í fullum Justice League-skrúða á Ströndum

Birgir Olgeirsson skrifar
Amber Heard í gervi Meru við tökur á Justice League á Ströndum. Þeir sem þekkja ágætlega til á þessu svæði telja líklegt að myndin sé tekin í fjörunni í Gjögri á Ströndum.
Amber Heard í gervi Meru við tökur á Justice League á Ströndum. Þeir sem þekkja ágætlega til á þessu svæði telja líklegt að myndin sé tekin í fjörunni í Gjögri á Ströndum. Vísir/Twitter

Bandaríska kvikmyndaverið Warner Bros birti í dag mynd af leikkonunni Amber Heard í fullum skrúða sem Atlantis-búinn Mera á tökustað á Ströndum hér á Íslandi.



Er myndin hluti af kynningarefni fyrir myndina Justice League sem er væntanleg í kvikmyndahús í nóvember á næsta ári en tökur á henni hafa staðið yfir í Djúpavík síðustu daga og munu standa yfir fram að mánaðamótum.



Á meðal leikara sem eru á Íslandi vegna myndarinnar eru Ben Affleck, Jason Momoa og Willem Dafoe ásamt Amber Heard.



Mera er afar stór sögupersóna í DC-heiminum en hún er eiginkona Arthur Curry/Aquaman sem leikinn er af Jason Momoa.



Í Justice League munu Batman, Superman, Wonder Woman, The Flash, Aquaman og Cyborg taka höndum saman til að verja mannkynið gegn illmennum.



Í stiklu fyrir myndina sem frumsýnd var í júlí síðastliðnum mátti sjá Ben Affleck í hlutverki Bruce Wayne, ávarpa þorpsbúa í ónefndu ölkelduhúsi þar sem hann segist vera að leita að manni sem kemur með háflóði og færir íbúum þorpsins fisk þegar hvað harðast er í ári.



Í þessu atriði mátti sjá nokkra íslenska leikara, þar á meðal Ingvar E. Sigurðsson, Ágústu Evu Erlendsdóttur, Kristbjörgu Kjeld og Salóme Gunnarsdóttur. Var sú sena tekin upp í Lundúnum síðastliðið vor en Warner Bros. sendur flugvél eftir íslensku leikurunum til að flytja þá þangað frá Íslandi. Er Ingvar E. sagður hafa fengið nokkrar línur á móti Ben Affleck við tökur á atriðinu, en óvíst er hvort það muni rata í lokaútgáfu myndarinnar.



Willem Dafoe leikur Nuidis Vulko sem er einn nánasti samstarfsmaður Arthur Curry/Aquaman en þeir eru báðir hluti af Atlantis-fólkinu sem lifir neðansjávar. Dafoe var hér á landi við tökur á myndinni í Djúpavík. Þá hafði tökulið myndarinnar breytt gömlu verksmiðjunni í Djúpavík í einskonar bar, samkomuhús eða ölkelduhús. Sjá nánar hér.



Jason Momoa hefur einnig verið iðinn við að birta myndir af sér á Ströndum en á einni þeirra mátti sjá hann í samskonar klæðnaði og hann skartar í atriðinu sem sjá má í stiklunni.



Sjá einnig: Momoa virðist ánægður með veruna á Íslandi



Því má mögulega leiða líkur að því að tökurnar í Djúpavík snúist að stórum hluta um leit Bruce Wayne að Aquaman og samskipti þeirra á milli og líf Atlantis-búanna miðað við þá mynd sem birt var af Amber Heard í dag í fullum skrúða á Ströndum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×