Innlent

Óformlegar þreifingar milli Pírata og Viðreisnar um mögulegt stjórnarsamstarf

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Óformlegar þreifingar varðandi mögulegt ríkisstjórnarsamstarf hafa átt sér stað milli Pírata og Viðreisnar. Þetta kom fram í viðtali við Ástu Guðrúnu Helgadóttur þingmann og oddvita Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður í Kosningaspjalli Vísis í dag.

„Ég held að það hafi einhverjar óformlegar þreifingar átt sér stað þar. Það er bara svona óformlegt kaffispjall á milli einstaklinga innan Viðreisnar og einstaklinga innan Pírata en ég held að það hafi ekki verið neitt formlegt, meira bara svona til að reyna að skilja hvar viðkomandi stendur í ákveðinni pólitík og ég held að það sé bara mjög eðlilegt og mjög hollt. Viðreisn er náttúrulega nýtt afl í íslenskum stjórnmálum þó að þetta séu náttúrulega gamalkunnug andlit þannig að það er mjög eðlilegt að þeir sem hafi umboð til þess að sinna þessum stjórnarmyndunarviðræðum fyrir hönd Pírata fari og kanni hvað Viðreisn upp á að bjóða,“ sagði Ásta Guðrún í dag.

Hún segir það fara mikið eftir því hvernig kosningarnar fara hver draumaríkisstjórn Pírata væri en telur ekki ólíklegt að stjórnarandstaðan, það er Píratar, Vinstri græn, Samfylkingin og Björt framtíð, muni stinga saman nefjum. En útiloka Píratar samstarf við Sjálfstæðisflokkinn?

„Sjálfstæðisflokkurinn útilokar líka samstarf við okkur þannig að það virðist ekki vera neitt sérstaklega mikill áhugi hjá hvorugum aðilanum að starfa saman.“

Hugsjónafólk vissulega innan Pírata en líka fólk sem er raunsætt varðandi stjórnarmyndun

Í viðtali á bresku sjónvarpsstöðinni Channel 4 í seinasta mánuði sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands að það gæti reynst hugsjónaflokki eins og Pírötum erfitt að mynda ríkisstjórn þar sem gera þurfi málamiðlanir en forseti Íslands veitir stjórnarmyndunarumboðið eftir kosningar. Aðspurð hvort henni þætti þessi ummæli forsetans viðeigandi í því ljósi sagði Ásta:

„Þetta er kannski svolítið mikið fræðimaðurinn Guðni sem er að tala þarna. Hann er náttúrulega alltaf forseti núna þegar hann talar opinberlega en ég held að það sé náttúrulega svolítið erfitt að komast inn í þetta svið að vera orðinn forseti. En ég held að það sé mögulega alveg rétt mat hjá honum sem fræðimanni að það gæti verið erfitt fyrir Pírata að fara í stjórnarmyndunarviðræður út af því að það eru mjög margir sem hafa miklar hugsjónir.“

Á sama tíma væru þó líka margir innan Pírata raunsæir á það hvað er hægt að fá í gegn þegar við erum að tala um ríkisstjórnarsamstarf. Því væru þetta óþarfa áhyggjur.

Kosningaspjall Vísis er hluti af ítarlegri umfjöllun fréttastofu 365 fyrir komandi alþingiskosningar, 29. október næstkomandi. Áhorfendum gefst kostur á að spyrja frambjóðendur spurninga í gegnum Facebook-síðu Vísis á meðan útsendingu stendur. Fulltrúi Dögunar verður til viðtals klukkan 13.30 á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×