Innlent

Bjarni Ben um fyrstu tölur: „Kemur gleðilega á óvart“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það var létt yfir Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins þegar fréttastofa náði tali af honum á kosningavöku flokksins á Grand Hótel eftir að fyrstu tölur úr Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi bárust.

Í Suðurkjördæmi fær flokkurinn 34,8 prósent og í Norðausturkjördæmi er hann með 27,7 prósent Inntur eftir fyrstu viðbrögðum sagði Bjarni að flokksmenn væru að fá gleðileg tíðindi.

„Við fögnum því að þessar fyrstu tölur gefi góða vísbendingu um að okkar kosningabarátta hafi skilað árangri en auðvitað vill maður hafa varann á,“ sagði Bjarni sem skilaði jafnframt kveðjum til sjálfstæðismanna um land allt.

Bjarni fagnaði tölunum vel og spurður hvort að þær hefðu komið honum á óvart sagði hann:

„Þetta er meira en kannanir hafa verið að sýna og mjög sterk niðurstaða en ég ætla að gæta að því að halda ró minni. En þetta kemur gleðilega á óvart.“

Bjarni segist búast við langri nótt.

„Já, ég hef nú gengið út frá því að í kvöld myndum við vera að upplifa spennandi kosningar.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ánægð á kosningavöku flokksins í kvöld.vísir/hanna
vísir/hanna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×