Í frétt BBC er spurt hvort að Pírati verði næsti forsætisráðherra Íslands. Þar segir að Píratar eigi í fyrsta sinn möguleika á því að taka þátt í ríkisstjórn. Þá sé ljóst að kannanir bendi sterklega til þess að niðurstöður kosninganna muni hrista hressilega upp í einu elsta lýðræðisríki heims.
Fréttaveitan Associated Press fjallar einnig um kosningarnar. Þar segir að síðustu ár hafi verið stormasöm fyrir Íslendinga sem hafi þurft að lifa með eldfjöllum og að bankamenn hafi nærri því sett landið á hausinn fyrir nokkrum árum. Því íhugi Íslendingar nú að leggja traust sitt á Pírata.

Einnig er rætt við Birgittu Jónsdóttur, einn leiðtoga Pírata, þar sem hún þakkar árangurinn því að hafa náð svo vel til ungs fólks.
Margir af helstu fjölmiðlum heims birta þessa frétt AP og má þar nefna New York Times og Washington Post í Bandaríkjunum.
The Guardian í Bretlandi fjallar einnig um kosningarnar og líkt og aðrir erlendir miðlar fjallar frétt blaðsins að mestu leyti um Pírata og möguleika þeirra á að komast í ríkisstjórn. Financial Times er einnig með innslag um Pírata þar sem hlusta má á sérfræðing blaðsins í Norðurlöndunum útskýra hvaða Píratar standa fyrir.
Þar segir að mjög líklegt sé að flokkur sem aðhyllist beint lýðræði, gagnsæi í stjórn ríkisins, afglæpavæðingu eiturlyfja og sem vilji veita Edward Snowden hæli muni líklega mynda næstu ríkisstjórn Íslands.
En það er ekki einungis í Evrópu og Bandaríkjunum sem áhugi er fyrir kosningunum hér á landi. Al-Jazeera fjallar um að Ísland geti orðið fyrsta ríkið sem muni lúta stjórn Pírata. Þar segir að ólíkt systurflokkum Pírata í Evrópu gangi Pírötum afar vel.
Það er því ljóst að augu heimsins munu hvíla á Íslandi næstu daga þangað til að úrslit kosninganna verða ljós.