Reglan um breytingu á röðun frambjóðenda er nokkuð flókin. Í umfjöllun Fréttablaðsins er stuðst við lýsingu Þorkels Helgasonar á vef landskjörstjórnar í greinargerð hans um kosningarnar 2003.
Í kosningalögum er gert ráð fyrir að röð frambjóðenda ráðist af samanlagðri stigagjöf hvers frambjóðanda. Stigin fær hver þeirra af stöðu sinni á listanum að teknu tilliti til breytinga kjósenda. Í kosningalögum er talað um atkvæði og atkvæðabrot. Til einföldunar verður talað um stig í þessari umfjöllun. Þeir frambjóðendur sem hafa flestu stigin fá þingsætin.
Til þess að gæta hlutleysis í umræðunni velur Fréttablaðið að taka ekki dæmi af neinu framboðanna í kosningunum núna. Þess í stað ímyndum við okkur að listi Njálunga bjóði fram.

Samkvæmt kosningalögum er kjósanda heimilt að strika yfir nöfn eða rita sætisnúmer að eigin vali framan við nöfn frambjóðenda. Einungis má gera breytingar á þeim lista sem kjósandinn hefur krossað við, annars verður atkvæðaseðillinn ógildur.
Látum sem svo að kjósandi sé eindreginn stuðningsmaður Hallgerðar langbrókar, sem er í fjórða sæti á lista Njálunga, og sonar hennar, Grana Gunnarssonar, sem er í níunda sæti. Þessi kjósandi strikar þá yfir Bergþóru og setur Hallgerði í efsta sæti en Grana í fjórða sæti. Svo strikar kjósandinn yfir nafn Gunnars, eins og gert hefur verið í þriðju myndinni hér að ofan.
Það þarf mikla samstöðu á meðal kjósenda til þess að ná fram breytingum á listum og breytingarnar geta aldrei orðið miklar. Í hæsta lagi er raunhæft að ná að færa frambjóðanda upp um eitt sæti og þá þann næsta fyrir ofan niður um sæti.
Til þess að ná fram þeirri breytingu að víxla röð á tveimur frambjóðendum sama lista er öruggast að strika þann út sem á að færast niður og merkja 1 við þann sem kjósandi ætlar að lyfta upp. Hlutfall kjósenda þarf að vera hið minnsta jafnt 1/(r+1) þar sem r er svokölluð röðunartala. Sú tala er jöfn tvöfaldri tölu þingsæta listans, en 3 ef listinn fær aðeins eitt sæti. Þessir útreikningar miðast þó við að aðrir kjósendur, einkum þeir sem vilja koma í veg fyrir víxlunina, bregðist ekki við.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu