Fótbolti

Kári og Viðar fá milljónir í gullbónusa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason.
Kári Árnason. Vísir/Getty
Kári Árnason og Viðar Örn Kjartansson áttu báðir stóran hlut í meistaratitli Malmö FF í ár og þeir fá báðir veglegan bónus.

Sænska vefsíðan Fotbollskanalen hefur nú tekið það saman hvað leikmenn sænsku meistaranna fá í bónusgreiðslur fyrir sænska titilinn.

Malmö FF tryggði sér titilinn í vikunni með því að vinna 3-0 sigur á Falkenberg á sama tíma og IFK Norrköping tapaði 2-1 á móti Elfsborg

Allir leikmenn byrja á því að fá átta þúsund krónur sænskar en síðan leggst við fimm þúsund krónur sænskar fyrir hvern spilaðan leik og þrjú þúsund sænskar krónur fyrir þau skipti sem leikmaðurinn var ónotaður varamaður.

Aðeins tveir leikmenn fá meira en Kári Árnason. Kári fær alls 184 þúsund sænskar krónur eða 2,3 milljónir íslenskra króna. Aðeins markvörðurinn Johan Wiland og Anton Tinnerholm fá meira en Kári. Kári fær síðan sömu upphæð og Jo Inge Berget.

Viðar var seldur frá félaginu í lok ágúst en fær samt fínan bónus. Viðar fær 154 þúsund sænskar krónur eða 1,9 milljón íslenskra króna.

Viðar skoraði fjórtán mörk fyrir Malmö-liðið og er ekki bara markahæsti leikmaður þess á tímabilinu heldur einnig markahæsti leikmaðurinn í allri sænsku úrvalsdeildinni.

Því miður fyrir Viðar Örn þá fær hann engan sérstakan markabónus því ef svo hefði verið hefði íslenski landsliðsframherjinn verið í frábærum málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×