Innlent

Könnun MMR: Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 24,7 prósent fylgi

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson. Vísir/ernir
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkurinn með 24,7 prósent fylgi samkvæmt nýrri könnun MMR.

Það er tæpum þremur prósentustigum meira en hann mældist með í síðustu könnun sem lauk 26. október þar sem flokkurinn mældist með 21,9 prósent fylgi.

Píratar koma næst á eftir með 20,5 prósent fylgi sem sé ívið hærra en fylgi þeirra í síðustu könnun, 19,1 prósent.

„Vinstri-grænir mældust með 16,0% fylgi sem er svotil sama fylgi og þeir mældust með í síðustu könnun (16,0%).

Framsóknarflokkurinn mældist nú með 11,4% fylgi, sem er ívið hærra en þeir mældust með í síðustu könnun (10,0%).

Viðreisn mældist nú með 8,9% fylgi sem er svotil sama fylgi og í síðustu könnun (9,3%).

Björt framtíð mældist nú með 6,7% fylgi, sem er um 2 prósentustigum lægra en í síðustu könnun (8,8%).

Samfylkingin mældist nú með 6,1% fylgi, sem er minnsta fylgi þeirra síðan mælingar MMR hófust og ívið lægra heldur en í síðustu könnun (7,6%).

Fylgi annarra flokka mældist um og undir 2%,“ segir í frétt MMR.

Samkvæmt útreikningum fréttastofu fengju Sjálfstæðismenn sautján þingmenn kjörna, Píratar fjórtán, Vinstri græn ellefu, Framsóknarmenn sjö, Viðreisn sex og Samfylking og Björt framtíð fjóra.

Ríkisstjórnarflokkarnir væru samkvæmt könnuninni með 24 þingmenn og stjórnin því fallin. Stjórnarandstöðuflokkarnir Píratar, Vinstri græn, Samfylking og Björt framtíð væru saman með 33 þingmenn og gætu því myndað saman fjögurra flokka meirihluta.

Könnunin var framkvæmd dagana 26. til 28. október 2016 og var heildarfjöldi svarenda 958 einstaklingar, 18 ára og eldri.


Tengdar fréttir

Vinstristjórnin virðist ekki í kortunum

Komandi stjórnarmyndunarviðræður gætu orðið þær flóknustu í lýðveldissögunni. Könnun fréttastofu 365 bendir til þess að þeir fjórir flokkar sem lýstu yfir vilja til samstarfs í gær verði að taka annan flokk til viðbótar með í




Fleiri fréttir

Sjá meira


×