Innlent

Símon sakaður um kerlingarvæl af vinum sínum vegna auglýsinga Rassa

Jakob Bjarnar skrifar
Símon er grjótharður þó hart sé að honum sótt af helstu leikstjórum landsins vegna afstöðu hans til auglýsinga Rassa.
Símon er grjótharður þó hart sé að honum sótt af helstu leikstjórum landsins vegna afstöðu hans til auglýsinga Rassa.
Verulegs ágreinings milli vina og samstarfsmanna gætti í nótt á Facebooksíðu Símonar Birgissonar, dramatúrgs Þjóðleikhússins en þar var tekist á um nýjasta útspil VG – auglýsingu þar sem Ragnar Kjartansson blandar drykk fyrir Katrínu Jakobsdóttur, formann flokksins. Þau finna í kokteilnum myndlíkingu fyrir samfélagið allt. Skála svo og reykja feitan vindil.

Ragnar Kjartansson listamaður, sem stundum kallar sig Rassa prump, hefur farið mikinn í auglýsingum VG fyrir komandi kosningar. Og hafa þær valdið nokkru uppnámi utan sem innan VG. Í auglýsingunum er stuðst við staðalímyndir, sem er nokkuð sem ýmsir innan VG hafa gagnrýnt, en það er ekki sama hver notast við slík og listamaðurinn Ragnar má ýmislegt sem annar ekki má. Þetta hefur orðið til þess að nokkur viðsnúningur hefur orðið á viðtekinni hugmyndafræði.

Dökkur dagur þegar Ísland breytist í áfengisblöndu

Símon, sem er Samfylkingarmaður, en sá flokkur vill á stundum kalla sig frjálslyndan, fordæmir þessa auglýsingu harðlega og segir það einstaklega ósmekklegt.

„Áfengi er þvílíkt böl í íslensku samfélagi og oft hefur verið talað um að við búum í alkahólíseruðu samfélagi þar sem umræða einkennist af meðvirkni. Hér vantar fé í meðferðarstofnanir sem eru fullar af fólki sem á við alvarleg fíknivandamál að stríða - áfengi er rótin í langflestum glæpamálum, kynferðisbrotum, heimilisofbeldi og ofbeldisbrotum. Vinstri grænir eru kannski komnir á fyllerí út af góðum könnunum upp á síðkastið og draumum um forsætisráðherraembættið. Mér finnst þetta ósmekklegt og sýnist Katrín Jakobsdóttir ekkert hafa sérstakan húmor fyrir þessu í myndbandinu. Dagurinn sem íslenskt samfélag verður að áfengiskokteil er dökkur dagur,“ skrifar Símon.

Samfylkingarmaðurinn Símon talar á þeim nótum sem gjarnan hafa verið kennd við forsjárhyggju þeirri sem VG hefur einkum talað fyrir. Félagar Símonar úr leikhúsinu vaða í hann og saka um það að vera pólitískt rétthugsandi. Þrír leikstjórar sauma að Símoni á Facebooksíðu hans og var þar heitt í kolum í nótt. Bráðskemmtileg umræða sem Vísir leyfir sér að endursegja eftir föngum.

Símon sem húsmóðir í Vesturbænum

Símon nýtur reyndar í fyrstu stuðnings frá sjónvarpsmanninum Þorbirni Þórðarsyni sem segir þetta óskiljanlega ákvörðun að nota áfengi og mikill dómgreindarbrestur. En, þá byrjar ballið og ríður Benedikt Erlingsson leikstjóri á vaðið:

„Þetta er nú meira kellingarvælið í þér Símon Birgisson (Eða það hefði amma mín sagt enda var hún hin skemmtilegast kelling. Þú ætti að skrifa undir þennan status: "Húsmóðir í Vesturbænum" Það vantar alveg í þig bitterinn. Ég held að flestir sjá að húmorinn liggur í því hvað þetta er óviðeigandi. Og þar með skemmtilegt og óvenjulegt í kosningarbaráttu sem venju fremur er tepruleg. Og þú sem dramatúrk þjóðleikhússins. Hefðir þú kvartað yfir þessu atriði á stórasviði Þjóðleikhússins.“

Símon og Þorleifur tókust á um hugmyndafræði á Facebook í nótt.
Stefán Jónsson leikstjóri er hjartanlega sammála síðasta ræðumanni:

„Sammála Benna, þetta er yndislega "politically incorrect", sem er skemmtilegur fleygur inní kosningabaráttu, sem á margt sameiginlegt með dauða leikhúsinu, flest er fyrirsjáanlegt, gömul trix úr gömlum kosningaleiksýningum. Mér finnst þetta vera skemmtileg dramatúrgía, jafnvel sem óvirkum, og það ætti Símon að sjá, en hann horfir e.t.v. á þetta úr herbúðum Samfylkingar.“

Samfylkingarmaðurinn vill banna áfengisauglýsingar

Símon telur afstöðu sína ekki koma starfi sínu við. Og gefur ekkert eftir:

„Ég hef hins vegar persónulega sterkar skoðanir á áfengismenningu þjóðarinnar og finnst lítill húmor í því að búa til kokteila í pólitískum auglýsingum. Hingað til hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið að sitja einn að daðri sínu við áfengi í matvöruverslanir og ungliðar þar haldið þeim málstað á lofti á meðan vinstri flokkar hafa predíkað meiri hófsemi og forræðishyggju í þeim málum. Þar stend ég,“ segir Símon.

„Ég er fylgjandi banni við áfengisauglýsingum og held að minni notkun sígaretta í bíómyndum stuðli með öðru að minnkandi reykingum. Vinstri grænum er auðvitað frjálst að blanda alla þá kokteila sem þeir vilja og dreifa á netinu en mér er líka frjálst að gagnrýna það án þess að starf mitt sé dregið inn í umræðuna.“

Óvenjulega ósvífið upplegg

Kolbeinn Óttarsson Proppé er í framboði fyrir VG og hann vill taka þátt í þessari athyglisverðu umræðu. „Sem óvirkur alkóhólisti sem notið hefur frábærrar þjónustu á meðferðarstofnunum og endurreist mitt líf á þeim grunni sem þar var lagður, leyfi ég mér að vera algjörlega ósammála þér,“ lýsir frambjóðandinn yfir.

Kolbeinn leyfir sér, sem óvirkur alkóhólisti, að vera algerlega ósammála Símoni.
Kolbeinn segir það óralangt frá einhverri meðvirkni að sýna fólk blanda sér kokteil; „að ég veit eiginlega ekki hvort þú meinar þetta. Og það hvernig þú snýrð myndlíkingunni við finnst mér furðulegt. Það að taka kokteil og sjá út úr honum myndlíkingu fyrir réttlátt samfélag er allt annað en að íslenskt samfélag verði áfengiskokteill. Og það að tengja þetta hugmyndum Sjálfstæðisflokksins um áfengi í matvöruverslun er óvenjulega ósvífið, vonandi skýrir kosningaskjálfti þau, en það væri þá ástæða, ekki afsökun.“

Þorleifur Örn sakar Símon um pólitíska rétthugsun

En það fer fyrst að þrengjast verulega um Símon þegar félagi hans og samstarfsmaður úr leikhúsinu, Þorleifur Örn Arnarson, blandar sér í leikinn. Hann lýsir því yfir að allar VG auglýsingar „Rassa Prump“ finnist honum verulega skemmtilegar.

„Ég hef horft á menningar auglýsinguna með nöktu konuna með asna grímuna endalaust oft undanfarið og sýnt samstarfsfólki mínu ytra enda er þarna kaldhæðni og húmorískt tvist með besta móti.

Ég held að hvorki dýraverndar samtök né fórnarlömb kynferðisofbeldis hafi sett sig upp á móti þeirri auglýsingu þrátt fyrir það að augljóslega blæði nöktu konunni með asna höfuðið (sem mætti auðvitað lesa bókstaflega sem myndi náttúrlega gera þetta helmingi ósmekklegra). Og augljóslega á það sama við hér.

Við erum komin á hættulegan stað ef pólitísk rétthugsun er komin svo langt að það er bannað að grínast. Það væri að mínu viti mun svartari dagur en sá þar sem stjórnmálaflokkar ákveddu að beita húmor og stilla upp listamönnum til þess að bera það á borð.“

Látum Sjálfstæðismenn um kokteila og humar

En, Símon gefur sig hvergi þó Þorleifur Örn sé genginn í lið þeirra sem eru á öndverðum meiði.

Þorbjörn Þórðarsson metur það sem svo að Katrínu líði ekki vel með þetta en þegar svalasti hipsterinn í bænum mætti var fátt um varnir.
„Er alveg sama hvort hún sé að ræða við herra prump eða Lalla Johns. Finnst að Sjálfstæðismenn megi sitja einir að sínu hvítvínsþambi með humar í hádeginu og steik á kvöldin. Það hljóta að vera aðrar leiðir til að tala um og greina samfélagið en að blanda sér kokteil og drekka og setja myndband af því á netið. Kannski er það svaka fyndið. So be it. Mér fannst það ekki fyndið og eins og ég sagði áðan þá er ég fylgjandi banni við áfengisauglýsingum og ekki eigi að normalísera neyslu þess.“

Svalasti hipsterinn og hin meðvirka Katrín

Síðastur á mælendaskrá og síðastur í háttinn í nótt eða uppúr miðnætti, ef marka má umræðuna á Facebookvegg Símonar, reyndist svo Þorbjörn Þórðarson:

„Auðvitað skiptir þetta myndband engu máli í stóra samhengi hlutanna. Ég hef ekki sama listræna innsæi og þið hinir hérna framar. Ég er bara hissa á því að Katrín Jakobsdóttir hafi látið plata sig út í þetta rugl,“ segir Þorbjörn. Og hann heldur áfram.

„Hún lét hafa eftir sér í viðtali við Egil Helgason í útvarpsþættinum „Undir áhrifum“ (sem er nett LOL í ljósi þessa þráðar) að hennar helsti galli væri meðvirkni. Kannski liggur ákvörðunin þar. Þegar svalasti hipster landsins kemur með hugmyndina þá getur þetta ekki klikkað, kýlum á þetta!““




Fleiri fréttir

Sjá meira


×