Erlent

Árin átta hjá Obama: Ætlaði að breyta svo miklu

Miklar vonir voru bundnar við Barack Obama þegar hann var kosinn forseti Bandaríkjanna fyrir átta árum. Stóru loforðin runnu sum út í sandinn en vinsældir forsetans hafa verið að aukast á ný síðustu vikur hans í embættinu.

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Barack Obama á skrifstofu sinni í Hvíta Húsinu 28. janúar 2009. Vísir/AFP
Barack Obama hafði verið forseti Bandaríkjanna í aðeins tæpa tíu mánuði þegar honum var tilkynnt að hann fengi friðarverðlaun Nóbels.

Mörgum þótti þessi ákvörðun norsku Nóbelsnefndarinnar undarleg en hún sýnir hve miklar vonir voru bundnar við Obama í byrjun. Kosningabarátta hans einkenndist af mikilli bjartsýni og loforðum um umbætur og endurnýjun stjórnmálanna.

„Yes, we can!“ var slagorðið og heimsbyggðin hreifst með. Þar á meðal norska Nóbelsnefndin sem veitti honum verðlaun fyrir viðleitnina, áður en búið var að framkvæma.

Obama hefur nú búið í Hvíta húsinu í nærri átta ár, tvö kjörtímabil. Hann hverfur þaðan á braut í janúar þegar nýr forseti tekur við keflinu.

Betri heimur í vændum

Obama ætlaði að loka fangabúðunum alræmdu í Guantanamo á Kúbu. Hann ætlaði að stöðva allar pyntingar á vegum bandarískra stjórnvalda.

Með ræðu sem hann hélt í Kaíró í Egyptalandi 4. júní 2009, þá ekki búinn að sitja hálft ár á forsetastól, vakti hann vonir um betri tíð á alþjóðavettvangi. Bandaríkin mundu beita sér fyrir betri samskiptum við múslimaríki, hætta hernaði sínum bæði í Afganistan og Írak og reyna virkilega að gera sitt besta til að sætta Ísraela og Palestínumenn. Með þessu mundu hryðjuverkahópar smám saman lognast út af:

„Því fyrr sem öfgamennirnir verða einangraðir og óvelkomnir í samfélögum múslima, því fyrr verðum við öll öruggari,“ sagði forsetinn.

Norska hjálparhöndin

Þessi ræða og fleiri svipuð orð, sem Obama lét falla við ýmis tækifæri, áttu ekki síst þátt í því að Nóbelsnefndin ákvað að treysta honum fyrir hinum virtu verðlaunum. Nefndin vildi styðja Obama til góðra verka, þótt þau væru ekki orðin að veruleika.

Sex árum síðar, haustið 2015, sendi norski sagnfræðingurinn Geir Lunde­stad frá sér æviminningar sínar, en hann var framkvæmdastjóri norsku Nóbelstofnunarinnar þegar Obama fékk verðlaunin.

Þar segist hann hafa efasemdir um að þessa ákvörðun: „Eftir á að hyggja getum við sagt að rökin fyrir því að rétta ætti Obama hjálparhönd hafi aðeins að hluta til verið rétt,“ skrifar Lundestad. Árangurinn hafi ekki orðið sá sem Nóbelsnefndin hafði vonast til.



Jafn ófriðvænlegt og áður

Stóru loforðin runnu sum harla fljótt út í sandinn. Honum hefur ekki tekist að loka Guantanamo-búðunum alræmdu á Kúbu.

Og þótt Bandaríkjaher hafi verið kallaður heim að mestu frá Afganistan og Írak þá geisa þar enn harðvítug átök og hin grimma borgarastyrjöld í Sýrlandi braust út í beinu framhaldi af ólgunni í Írak.

Ekkert hefur þokast í harmleiknum í Palestínu, þar sem Ísrael á enn í sínu eilífa stríði við Palestínumenn.

Andsnúinn meirihluti á þingi

Að undanskildum tveimur fyrstu árum forsetatíðar Obama hefur hann þurft að kljást við meirihlutavald andstæðinga sinna á þingi.

Forseti Bandaríkjanna hefur í raun lítil völd heima fyrir nema hafa þingheim á sínu bandi og geta treyst á stuðning þar við þau mál sem hann vill hrinda í framkvæmd.

Ímyndin af Obama hefur því mótast mjög af því hve litlu hann hefur getað áorkað. Í samanburði við stóru loforðin í upphafi verða efndirnar enn átakanlegri, sem eflaust hefur átt þátt í því að vinsældir hans minnkuðu hratt og hafa haldist frekar litlar lengst af.

Heima fyrir getur hann þó státað af ýmsum afrekum, þrátt fyrir andbyrinn, ekki síst á innanlandsvettvangi bandarískra stjórnmála.



Sumt heppnaðist

Þar má helst nefna að eitt mikilvægasta loforðið innanlands var að koma á heilbrigðisþjónustu fyrir alla Bandaríkjamenn á viðráðanlegu verði, en þessu höfðu Demókratar reynt að ná í gegn á þingi áratugum saman.

Andstæðingar hans hamra hins vegar á því að þetta afrek hans sé eitt það allra versta sem Obama hafi gert á öllum sínum ferli.

Hvað sem því líður þá hafa vinsældir Obama aukist töluvert nú á síðustu mánuðum, undir lok seinna kjörtímabilsins. Nú er svo komið að rúmlega 50 prósent aðspurðra segja hann hafa staðið sig vel í embætti. Þetta er minna en í byrjun, þegar meira en 60 prósent voru ánægð með hann, en megnið af ferlinum hefur ánægja Bandaríkjamanna með hann verið nálægt 40 prósentum, eða rétt rúmlega það.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






×