Innlent

Steingrímur J.: Alger þvættingur að fyrir liggi samkomulag VG og Sjálfstæðisflokks

Jakob Bjarnar skrifar
Steingrímur J. segir þetta rangt, uppspuna frá rótum og lygi.
Steingrímur J. segir þetta rangt, uppspuna frá rótum og lygi. visir/eyþór/stefán
„Mér virðist að heimild fyrir þessari frétt sé nafnlaus slúðurvefur. Þetta er einfaldlega rangt, uppspuni og lygi frá rótum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, oddviti VG í Norðausturkjördæmi.

Steingrímur er að tala um fullyrðingar Benedikts Jóhannessonar formanns Viðreisnar, þess efnis að fyrir lægi einhvers konar samkomulag milli VG og Sjálfstæðisflokks um myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum.

Vísir greindi frá þessu nú fyrr í kvöld, reyndi að ná tali af Steingrími þá til að bera þetta undir hann en hafði ekki erindi sem erfiði – stanslaust var á tali hjá Steingrími, enda hann í önnum: Níu dagar til kosninga.

„Á þessum ágæta fundi í Grímsey, þar sem stór hluti fullorðinna íbúa sem staddur var í eyjunni mætti, voru engin orð viðhöfð af minni hálfu um ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Ég talaði á nákvæmlega sömu nótum um stöðuna í stjórnmálunum að þessu leyti eins og formaður okkar Katrín Jakobsdóttir og við öll höfum gert. Það sem við viljum er að mynda vinstri stjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur,“ segir Steingrímur sem furðar sig mjög á því að staðhæfingar sem þessar séu settar fram.

Í Facebook-pistli Benedikts, þar sem hann segir þetta samkomulag VG og Sjálfstæðisflokks fyrirliggjandi er tengt í frásögn af vefmiðlinum Vegginn sem lætur sig kosningarnar miklu varða, en þar eru skrif nafnlaus.

„Já, mér finnst umhugsunarefni að formenn stjórnmálasamtaka, sem væntanlega ætlast til þess að þeir séu teknir alvarlega, eins og Benedikt Jóhannesson, hlaupi upp með þvætting af þessu tagi. Þegar frumheimildin er jafn augljóslega ómarktæk eins og hér ber raun vitni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×