Innlent

Viðreisn útilokar ekki minnihlutastjórn með Bjartri framtíð og VG

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar kom til Bessastaða rétt fyrir klukkan 14 í dag til fundar við forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, vegna komandi stjórnarmyndunarviðræðna.

Hann ræddi við fjölmiðla fyrir fundinn og sagðist búast við því að eiga gott samtal við forsetann.

 

„Ég bara hlakka til að segja honum okkar viðhorf og heyra hans viðhorf,“ sagði Benedikt og svaraði því aðspurður hver væru þeirra viðhorf að það hefði margoft komið fram í kosningabaráttunni. Hann játaði því að Viðreisn væri í lykilstöðu.

„Já, það lítur þannig út og við leggjum auðvitað áherslu á það í þessu að ná okkar málefnum fram.“

En á hvaða vagn ætlar hann að stíga?

„Vagn Viðreisnar sem siglir bara áfram,“ svaraði hann þá.

Hann vildi ekki svara því til hvort hann væri kominn með einhverja mynd af stjórn í hugann og aðspurður hvernig ríkisstjórn Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar hljómaði í hans eyrum sagði hann:

„Eins og ég sagði fyrir fram þá er bara eitt mynstur sem við útilokum og það stendur.“

Þá var Benedikt einnig spurður út í hugmynd Pírata um minnihlutastjórn Viðreisnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar sem Píratar og Samfylkingin myndu verja falli. Hann sagði það „áhugavert útspil“ og var þá spurður hvort það væri eitthvað sem hann gæti hugsað sér.

„Við höfum ekki útilokað neitt,“ sagði hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×