Innlent

Píratar tilbúnir til þess að styðja minnihlutastjórn VG, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Umboðsmenn Pírata, þau Birgitta Jónsdóttir, Smári McCarthy og Einar Brynjólfsson, áttu um 45 mínútna langan fund með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands á Bessastöðum í dag.

Eftir fundinn sögðu þau fjölmiðlamönnum að þau væru tilbúin til þess að styðja minnihlutastjórn þriggja flokka, það er Viðreisnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar.

Birgitta sagði í samtali við blaðamenn að úrslit kosninganna bæru með sér að verið væri að kalla eftir meiri breidd í stjórnskipan landsins en áður hefur þekkst.

Því hafi þau borið upp hugmynd Pírata, sem rædd var á þingflokksfundi þeirra í gærkvöldi, að flokkurinn myndi styðja minnihlutastjórn Viðreisnar, VG og Bjartrar framtíðar. Það væri þó ekki nægur þingstyrkur fyrir meirihluta og því þyrfti Samfylkingin einnig að verja stjórnina falli eða taka þátt í henni.

Aðspurð um hvers vegna þau gerðu ekki kröfu um að sitja í ríkisstjórn sögðu þau að það hefði fyrst og fremst með flækjustigið að gera. Það væri flókið ef að formenn fimm flokka myndu eiga sæti við ríkisstjórnarborðið og að þetta útspil þeirra væri til þess fallið að skapa frið og stöðugleika.

„Við erum að þessu til að ná fram breytingum í samfélaginu en ekki til þess að ná völdum,“ sagði Smári.

Þá voru þau spurð hvernig forsetinn hefði tekið þessu.

„Hann hljómaði opinn fyrir þessu og ætlaði að ræða þetta við aðra en svo verðum við bara að sjá til hvað kemur út úr þessu,“ sagði Smári.

Birgitta sagði jafnframt að Píratar væru með þessu útspili sínu ekki að segja að þau vilji ekki vera í fimm flokka stjórn, þau vildu einfaldlega leggja þetta til málanna ef það gæti orðið til þess að leysa einhverja hnúta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×